Er tilgangur lífsins yrkja?

Ég hef verið að rembast eins og rjúpan við steininn, staurinn eða við það sem blessuð rjúpan rembist við, við að búa til vísur til að svara Sundlaugi félaga mínum a.k.a Sigga í sundlauginni.  En af hverju er rjúpan alltaf að rembast staura og drasl, eru rjúpur með króníska magaveiki eða niðurgang og eru að reyna að láta ekki bera á því??  Mikil pæling, en… það reynist mér ekki létt verk að yrkja, ég næ reyndar oftast að koma með fyrri partinn en harðlífið tekur öll völd þegar seinni parturinn á að fæðast.  Eitthvað virðist heilastarfsemin hafa fengið hægðarlosandi lyf því eftir tvær heimsóknir á klósettið í amstri dagsins fæddist sitthvor vísan, einn, tveir og rúgbrauð.  Þessar vísur eru um eitt að mínum aðaláhugamálum, klósettferðir og hljóma svona:

Pissuferð
Á dollunni dunda mér við margt,

dansinn er nú stiginn,

með sprellan sprangandi út um allt,

setan öll útmigin.

Búinn 

Á toilettið ég tyllti mér,

tæmdi skottið fulla.

Ekki lengur brátt í brók,

búinn er að drulla.

Kannski eru klósettferðir það eina sem verður mér að yrkisefni, það mun tíminn leiða í ljós.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera þroskaður?

Það er alveg merkilegt hve oft í amstri dagsins fólk efast um þroska minn og lýsir undrun sinni yfir hegðun minni… furðulegt, því mér finnst enginn eins normal og ég!!

Ég er búinn að fara í mikla naflaskoðun síðustu daga, bæði bókstaflega og ekki svo bókstaflega, og hef verið að leita að þroskamerkjum og ég tel mig hafa fundið nokkur… til dæmis:
 

-          Ég hef hlotið þá vafasömu nafnbót að vera kallaður “kall”.

-          Ég er búinn að lýsa yfir jihad – heilögu stríði við nefhárin á mér.

-          Bakhár, axlarhár eru að líta dagsins ljós við mikla ógleði og 3 hár á vinstra eyra sem vaxa og dafna eins og hatur almennings á ríkisstjórninni.

-          Ég á skyrtu sem ég klæddist fyrir 15 árum.

-          Ég þvæ 1-2 þvottavélar á dag.

-          Mér finnst öll lögin á FM 95.7 hljóma nánast eins.

-          Ég fór síðast á djammið…. já, ég fór síðast á djammið.

-          Ég er kominn upp í heillum horfna skeiðvöllinn fyrir tíu og bara til þess að fara að sofa.

-          Ég vakna fyrstur ALLA morgna á heimilinu.


Ef þetta eru ekki þroskamerki þá veit ég ekki hvað og eftir að hafa verið nærri því 10 ár í öldungablaki þá segir það sig alveg sjálft að ég er klárlega kominn langt fram úr mér í þroska.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að gerast feisbúkkari?

Ég lét forvitnina buga mig og skellti mér inn í heim er nefnist Facebook nú fyrir stuttu.  Ég sem tel mig vera meðalgreindan mann, þó það kunni að vera deiluefni, vissi ekki hvort ég var að fara eða koma þegar ég lenti í Feisbúkkarheiminum.  Áður en ég vissi af þá voru komnir um 100 póstar á e-mailið mitt frá Feisbúkkar tíminu í útlöndum, það var að tilkynna mér að fólk sem ég þekki vel, þekki ekki vel, þekki og þekki ekki neitt var bjóða mér að gerast vinir sínir og það var að senda mér jólaskraut, það rændi mér og guð má vita hvað.  Ég rak svo upp stór augu þegar ég fékk boð í Sexgames.  Ég, sem er svo ungur og saklaus, meðalgreindur og rauðhærður í þokkabót, gat ekki látið mér detta í hug að það væri hægt að spila einhverja dónaleiki á Feisbúkkinni en það er nokkuð ljóst að ég verð að kynna mér hana enn frekar.  Grin  Það er líklega rétt sem feisbúkkarar segja, að þetta getur verið svaðalegur tímaþjófur.

En nóg um það…

Ég og ferfætlingurinn Móses skelltum okkur í aðra rómantíska og kreppulausa kvöldgöngu í kvöld.  Þegar leið á gönguna bættist við góður félagi okkar, Kúkur Í. Poka, og gengum við bæinn á enda og til baka.  Við sáum að jólaljósunum er að fjölga jafn og þétt og áður en maður veit af þá verður verður bærinn eins og mynd á jólapóstkorti.  Svo því sé haldið til haga þá eru einungis 33 dagar til jóla! 

Jæja, það er kominn háttatími, Kúkur Í. Poka biður fyrir góðar kveðjur til vina og ættingja.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eiga góðar minningar?

Við Móses skelltum okkur í kvöldgöngu nú í kvöld og virtum fyrir okkur jólaljósin sem komin eru í glugga hér og þar.  Það var stafalogn og snjóflyksurnar svifu letilega til jarðar og allt í einu stóð ég mig að leika leik sem ég hef ekki leikið síðan ég flokkaðist undir það að vera barn.  Ég skimaði eftir saklausu snjókorni, eins og rauðhært pardusdýr á veiðum, og svo át ég það.  Þetta rifjaði upp skemmtilega minningu þegar við Rakel frænka vorum að leika þennan sama leik og skölluðum hvort annað.  Það ætti að standa í þinglýstum lögum að þegar tveir eða fleiri stunda þennan leik, skal hjálmur hylja höfuðleður.
Við Móses vorum sammála um það að göngutúrinn fíraði aðeins upp í jólaskapinu hjá okkur, enda ekki nema 35 dagar til jóla.  Lognið, lötu snjóflyksurnar og ljósin… þetta var yndisleg og gjörsamlega kreppulaus stund.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að síga í liðinn?

Ég slysaðist til þess að fara velta fyrir mér frasanum “að kippa í liðinn”.  Ég heyrði einhvern tíman að læknavísindunum hefði hleypt fram og í einhverjum tilfellum þá væru doktorar byrjaðir að láta síga í liðinn í stað þess að kippa í hann.  Þetta velti upp þeirri spurningu í mínum litla og brenglaða huga hvort að frasinn “að kippa í liðinn” sé ekki bara hreinlega að verða jafn úreldur og ríkis-ó-stjórnin og Dabbi kúl.
Getur verið að framtíðin geymi það í skauti sér að maður eigi eftir að síga í liðinn á málunum, hver veit?

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera meðvitundarlaus?

Það er ekki þrautarlaust að vera pabbi.  Í dag var ég til dæmis nánast meðvitundarlaus af þreytu eftir svefnlitla nótt.  Jörgen Jón vildi láta Guð og menn vita að hann sé til og flutti aríur úr “Litla fjárfestinum með geislabauginn” eftir Schubert í nótt, við mjög svo dræmar undirtektir hlustenda.  Þrátt fyrir að vera sussaður niður eftir hvern þátt þá hélt hann samt ótrauður áfram. 

En þrátt fyrir sönginn þá er litla kútnum farið að líka aðeins betur við mig þrátt fyrir brjóstaleysið og erum við byrjaðir að tjatta og hlæja saman.  En skjótt skipast skap í börnum og áður en ég veit af er byrjað að arga á mig af öllum lífsins kröftum og heimtað að maður gefi brjóst.  Ég hef reynt allt í þessum aðstæðum og hefur þessi barátta mín skilað sér í heyrnarskorti á vinstra eyra eftir hátíðniörg sem hundurinn virðist aðeins heyra. 

Annars er eitthvað lítið títt, maður er aðeins kominn með hugann við jólin enda eru ekki nema 42 dagar í jólahátíðina.  Ég er að hugsa um að vera ekki á síðasta snúning eins og alltaf með jólakortin, maður ætti eiginlega að fara að koma sér í að fara að krota í eitt eða tvö en fyrst þarf maður auðvitað að semja hinn árlega pistil sem ég hef sent vinum og ættingjum.   En talandi um jólakort, vááá… hvað það er orðið dýrt að senda þau, við erum að tala um að bréf 0-20 grömm kostar 70.- kr., 21-50 gr. kostar 80.- kr. 51-100 gr. kostar 90.- kr. og 101-250 gr. kostar 130.- kr.  Er langt síðan að það kostaði 35.- kall??  Smile

Anyway… í ljósi þess að kreppan ríður hér um öll héröð þá hef ég hugsað mér um að senda öll mín jólakort í póstkröfu.  Grin

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að fara í þjálfunarbúðir?

Þrátt fyrir að vera aðeins þrítugur, þá byrjaði ég í öldungablaki árið 1999 og er þar af leiðandi búinn að vera öldungur í hátt í 10 ár.  Þessi áhugi minn á blaki og vera mín með þessum ungu sem og öldnu öldungum hefur leitt til þess að ég er kominn langt fram úr mér í þroska.  Hinir reyndu öldungar hafa leitt mann áfram og deilt visku sinni í hinni göfugu og tignarlegu blakíþrótt í gegnum áranna rás og hefði maður haldið að um ótæmandi viskubrunn væri þar að ræða.

Annað kom á daginn núna um helgina þegar Hyrnu menn og Súlu meyjar fengu þjálfara til að koma og vera með þjálfunarbúðir á föstudag og laugardag.  Móttaka, staðsetning, smass, hárgreiðslan og hárvöxtur er víst meðal annars sem ég þarf að laga til þess að geta kallast fyrirmyndar blakari.  Ég var niðurbrotinn blakari eftir föstudaginn og þurfti samstillt átak foreldra og ættingja, með þær væntingar að ég slái í gegn sem öldungur í blaki, til að ég mætti í þjálfunarbúðirnar á laugardeginum.  Eftir að hafa talað við loðna son minn, hann Móses, og Kjartan kanínu þá var kjarkurinn kominn aftur og ég mætti tvíefldur.

En að öllu gamni slepptu þá var þetta svakalega gaman og lærdómsríkt blaklega séð.  Ég veit að ég hef nægan tíma til að verða jafn öflugur blakari og hinir virtu öldunga því miðað við aldur þeirra elstu þá á ég að minnsta kosti 40 góð blakár eftir.  En frá og með deginum í dag mun eggið kenna hænunni.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera stoltur?

Ég get ekki annað en verið stoltur þessa dagana.  Ég setti upp skjólvegg á pallinn hjá mér sem og ruslatunnuskýli með hjólastöndum í sumar og viti menn, eftir öll vindstigin sem hafa glatt okkur undanfarið þá standa þessi mannvirki ennþá á sínum stað.  Ég hafði reyndar sáralitlar áhyggjur af skjólveggnum þar sem nágranni nr. 1, hann Jósteinn, aðstoðaði mig við að henda honum upp, en hitt gerði ég nánast alveg upp á eigin spýtur.  Það er mjög skemmtilegt að gera eitthvað upp á eigin spýtur, sérstaklega þegar maður er smíða. Wink

En þetta er mikið afrek, það liggur við að það sé hægt að kalla þrekvirki, þar sem ég hef álíka mikla smíðahæfileika og kjúklingur í brúnni sósu.  Grin

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eiga gæludýr?

Ég fór inn á Akureyri í gær, með í för var pabbi og Móses litli en tilgangur ferðarinnar var að fara með Móses til dýralæknis.  Sýklalyf, eyrnadropar og ofnæmislyf var meðal annars sem við komum með heim frá doktor Dýra, en hundurinn er líklega með ofnæmi.  Ekki er vitað fyrir hverju loðni sonur minn er með ofnæmi fyrir en ég giska á að það sé fyrir einhverjum fjölskyldumeðlimum… Jónu megin.  En til að skera út um þetta var tekin blóðprufa sem verður send til Bandaríkjanna á næstu dögum og munu hún skila nákvæmum niðurstöðum um hvað Móses má setja ofan í sig og hverjum hann hefur ofnæmi fyrir.  Ofnæmisvöldum verður þá meinaður aðgangur að Laugarvegi 10 en verða að láta sér gott heita að hringja, tala við aðra ættingja eða skoða þessa mjög svo ómarktæku bloggsíðu ef þeir vilja fylgjast með lífinu á L10. 
Ég er að segja ykkur það að það er meira vesen og meiri kostnaður sem fer í læknisaðstoð fyrir fjórfætlinginn en alla tvífættu fjölskyldumeðlimina til samans, en hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín. 

Eftir doktor Dýra þá lá leið okkar í Bonna, þ.e.a.s. Bónus, en mér fenginn í hendur stór og feitur innkaupalista fyrir brottförina.  Það merkilega við þennan lista var það að hann var listaður upp í þeirri röð sem vörurnar kæmu á leið minni inn og út úr búðinni.  Mér finnst það vera augljóst merki um Bonna-áráttu konu minnar þegar ég er sendur með innkaupalista, ekki í stafrófsröð, heldur í staðsetningaröð.

Gærdagurinn endaði með svo í faðmlögum við sófann og einni djé-vaff-djé mynd en fyrir valinu var Pabbinn, einleikur með og eftir Bjarna Hauk Þórsson sem var settur upp í Iðnó.  Til að gera langa sögu stutta þá gat ég engan vegin sofið í sófanum fyrir hlátrasköllum í Jónu.  Ég brá því á það ráð að fara inn í rúm að lúlla og horfði svo á Pabbann í dag og ég verð að segja að hann Bjarni Haukur, a.k.a. Hellisbúinn, fer alveg á kostum í þessu verki. 

Maður hefur svo ekki mikið til að blogga um í bili, ekki nema kannski kreppuna en það er nú bara heilt blogg út af fyrir sig.  Svona í lokin þá verð ég að segja frá því að Jörgen Jón er kominn með heimasíðu og er hún inni á Barnanet.is.  

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að missa sig?

Ég náði að missa mig aðeins í gleðinni í kvöld.  Það var bekkjarkvöld hjá Jóel og skoraði bekkurinn hans á foreldra sína í skólahreysti og í þremur útgáfum af skotbolta.  Skipt var í þrjú krakkalið og þrjú foreldralið fyrir skólahreystið og er skemmst frá því að segja að krakkarnir rústuðu okkur en rörið sem skríða átti í gegnum fór gjörsamlega með foreldra liðin, einhverja hluta vegna virtust sumir foreldrana festast inni í því.  Svo var farið í skotbolta, og þá byrjaði fjörið!!  Foreldrarnir unnu allar þrjár keppnir í skotboltanum og var keppnisskapið í manni komið í fluggír í restina þannig að maður var byrjaður að bomba boltanum í átt að 8 ára bekknum, ég var sko til í miklu fleiri atrennur.  Sem betur fer þá hraunaði maður ekki neinn þannig að allir fóru heim með tennurnar sínar en það var byrjað að glymja þreklega í veggjunum litla íþróttasalarins í grunnskólanum. Whistling

En af öðru, Stefán Geirharður a.k.a. Muggur var skírður um helgina og hlaut hann nafnið Jörgen Jón.  Eitthvað virtist Jörgen litli eiga sökótt við prestinn því um leið og prestley byrjaði að tala argaði Jörgen úr sér lungun og leitaði sem óður væri að brjósti.  Þar sem ég var frekar aumur í geirvörtunum þá lagði ég ekki í það að slengja honum á mig en um leið og presley lauk sér af og söngurinn byrjaði hætti kúturinn og flaug inn í draumalandið.  Ég er ekki frá því að ég hafi verið byrjaður að roðna örlítið þarna upp þar sem ég stóð með hann en þetta gekk bara fínt.  Svo var kjamsað á kökum, heitum réttum og fleiru svo maður skuldar nokkra kílómetrana á hlaupabrettinu eftir þessa helgi.

Fleira markvert hefur svo sem ekki gerst, ja… fyrir utan að ég fékk bráðskemmtilegt SMS á dögunum, það var frá Domios og hljóðaði svona:  “Pizzan  er að leggja af stað til þín.  Kveðja Domino´s Pizza.”  Ég var nú ekki lengi að bregðast við og svaraði með glott á vör:  “Þakka mikið, sjáumst eftir 5 tíma!” LoL ….en svar mitt komst því miður ekki til skila. Smile

Góðar stundir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.