Færsluflokkur: Bloggar

Er tilgangur lífsins að hleypa enska boltanum í frí?

Það er sannkallaður sorgardagur í dag á heimilinu, alla veganna hjá mér og Mósesi, ég veit að Jónu er nokk sama.  Þannig er að enski boltinn er kominn í frí þangað til í ágúst og til að bæta gráu ofan á svart þá varð Man. Utd. enskur meistari.  Það hefði verið snöggt um skárra að sjá Chel$ea verða meistara en vonandi taka þeir Man. Utd. í Meistaradeildinni svo þeir vinni ekki tvöfalt.  Púllarar enduðu á góðum nótunum með því vinna Tottenham 2-0 en nú er að baki enn eitt tímabilið sem ég sem púllari segi:  “Við tökum þetta bara á næsta tímabili!!”  Það er smá ljós í myrkrinu því maður getur hlakkað til að horfa á EM í sumar.  Wink

En að öðru, ég og Jóna, aðallega Jóna, héldum smá kaffiboð í dag í tilefni 29 ára og 12 mánaða afmælis míns sem var um daginn.  Það var bara vel heppnað og ég gerði sko mitt í undirbúningnum, þ.e.a.s. ég þvældist ekki fyrir.  Í kvöld kíkkuðu svo Danni frændi á mig með Önnu spúsu sinni og tókum við í Partý og co. 2 þar sem við Jóna rúlluðum yfir þau skötuhjú. 

Framundan er mynd með Richard Gere sem Jóna valdi og ég hef akkúrat enga trú á að geti verið skemmtileg, maður sér það bara á hulstrinu!!  Jóna hefur ekki átt gott mót undanfarið þegar komið er að vali video mynda og það er greinilega engin breyting á því í kvöld.  Grin  Ég er því farinn að flakka um netheima næstu tvo tímana eða svo.  Tounge

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eiga rólegan dag?

Enn einn rólegi dagurinn í dag.  Jóna og rekstrarleigubörnin Salka og Jóel sinntu sínum daglegu skyldum í dag meðan við Móses vorum heima og pössuðum húsið.  Mesta aksjónið hjá okkur félögunum var þegar við settum í þvottavél, sem á endanum urðu tvær, og þegar ég hleypti Mósesi út að pissa, sem gerðist svona ca. 1.500 sinnum. 

Eins og í gær þá náðum við að glápa á eina kvikmynd og þetta skipti var þetta ekki teiknimynd heldur hreyfimynd með lit og hljóði.  Fyrir valinu varð myndin Kung fu hustle.  Ninja

Þetta er engin venjuleg kung fu mynd, eða bara mynd yfir höfuð, og held ég að þessir fínu menn og konur sem skrifuðu handritið og framleiddu þessa mynd hafi verið reykjandi eitthvað sjúklega fríkað við skrifin og tökurnar.  Það mætti því halda að ég hafi verið á einhverju sterkara en Strepsils því ég fílaði þessa furðulegu kung fu-ævintýra-gamanmynd.  Þetta er kannski ekki besta lýsingin, viðeigandi lýsing er að þú ímyndir þér Bruce Lee mæti Bugs Bunny í slagsmálum í The Matrix.  Brjálað!!  W00t

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að horfa á Bee movie?

Það er lítið á mér að græða í dag, hef lítið sem ekkert að segja þar sem maður hefur varla hreyft sig í dag, hvað þá reynt að hugsa.  Heilsan er reyndar öll að koma til því dagurinn í dag var fyrsti móklausi dagurinn frá því að ég kom heim frá Ísó.  Lyktarskynið er allt að koma líka því ég fann væna lykt þegar hann Móses minn kúkaði á gólfið. 

Við Móses afrekuðum þó það að horfa á teiknimyndina Bee movie.  Til að gera langa sögu stutta vorum við mjög ánægðir með hana og gefum henni 3 stjörnur og 4 hundabein.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera veikur?

Ég er veikur og að því tilefni fagnaði ég alþjóðlega meðvitundarlausa deginum í gær með því að liggja heima í móki.  Reyndar hefur dagurinn í dag verið með svipuðu móti, mók, hósta, mók, snýta mér, mók, snýta mér… held að ég sé á góðri leið með að fylla heilt baðkar af hori. Sick

Ég met þetta ástand mjög alvarlegt því ég hef ekki getað kveikt á tölvunni nema á kvöldin, hef hreinlega ekki haft orku í það.

Það er reyndar ljós punktur við þetta eins og allt annað.  Ég er búinn að hósta það mikið að ég er kominn með strengi í magann sem segir mér að þegar ég kemst aftur út í dagsljósið verður maginn á mér massaður í drasl.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að fara á öldung?

Ég vona að enginn misskilji titil þessarar færslu en þarna er átt við öldungamót blakara sem var haldið á Ísafirði dagana 1. – 3. maí.

Rútuferðin frá Sigló til Ísó tók ekki nema litla 9 og ½ tíma en mikið gaman var í rútunni, var m.a. tekið í gítar á seinni partinum þegar söngvatnið hafði verið mundað og var mikið stuð.  96 lið allstaðar að, komu á Ísafjörð og vorum við ca. 40 sem mættum frá Sigló, Súlurnar mættu með þrjú lið og við Hyrnu menn mættum með tvö lið.  Miðað við hina heimsfrægu höfðatölu finnst mér það bara frábær árangur.  Árangurinn lét að sjálfsögðu ekki á sér standa, við í yngra liðinu enduðum í þriðja sæti en öll liðin frá Sigló, nema Súlur 1, fengu verðlaun.  Linda, Gilla, Didda R, Didda G, Silla og Helga… ég skal deila með ykkur bronsinu mínu!! Grin

Þema mótsins var lönd og fengum við Hyrnu menn Sádi Arabíu til að vinna með.  Við gengum því um götur Ísafjarðar, Bolungarvíkur, Flateyrar og Suðureyrar með araba höfuðföt en keppnisvellir voru á öllum þessum stöðum.  Þetta var mjög skemmtilegt og mörg lið lögðu mikið í þemað sitt.  Oftar en ekki þegar við mættum í hús heyrði maður oft út frá sér “Þarna koma olíufurstarnir”. 

Ég varð vitni af vondu atviki sem gerðist á mótinu en einn leikmaður kvennaliðs Gróttu fékk hjartaáfall í miðjum leik.  Skjót viðbrögð blakliðsins frá Landsspítalanum ásamt Hyrnu mannsins Sigga hjúkku björguðu án efa lífi þessara ágætu konu en hún fékk hárrétta meðhöndlun þangað til sjúkrabíllinn birtist.  Við fengum svo góðar fréttir af henni seinna um daginn svo þetta fór allt vel.

En að léttara tali…. herbergisfélagi minní þessari ferð var sjálfur Goggi Clúní tvífarinn hann Gulli Stebbi.  Við vorum ásamt tveimur öðrum Hyrnumönnum og slatta af Súlu dömum á gistiheimili á Ísafirði en hjóna fólkið var á Hótelinu.  Það var nú ekki lengi verið að finna nöfn á okkur og vorum við kallaðir Beggi og Pacas, eða hommarnir á hæðinni.  Ég var Beggi enda er Gulli beib miklu líkari Pacas. LoL

Lífið var auðvitað skoðað á Ísafirði by day og by night, þó aðallega by night, og verð ég að segja að Ísafjörður er klassa bær.  Það er ótrúlega margt þarna sem minnir á Sigló og leið manni mjög vel þarna meðan á dvölinni stóð.  Besta kvöldið var án efa föstudagskvöldið en þá var dansað á Edinborgarhúsinu til klukkan 3 um nóttina í svaka stuði undir tónum frá hinum ísfirska Stúlla og ísfirsku Dúu, sem voru í hörkugír.  Lokahófið var svo á laugardagskvöldinu og byrjaði kvöldið á hittingi heima hjá Loga leikstjóra, en Tóti svili og Hyrnu maður fékk litla bróður til að bjóða okkur á vinnustofu konunnar sinnar.  Svo var farið í íþróttahöllina þar sem hófið var haldið og ég held að við ættum ekkert að ræða framhaldið.  Það voru ekki ellismellirnir sem voru fyrstir til að fara heim, kl. 00:06 stóðum við tvö yngstu í hópnum upp úr sætum okkar og fórum heim að sofa.  Karlar og konur á sjötugsaldri og einn sem er nýkominn á áttræðis aldurinn héldu lengur út á djamminu en við…  Helga, við erum ÖMURLEG!!!  Pinch  Maður fékk líka alveg að heyra það í dag á leiðinni heim í rútunni sem tók ekki nema 8 og ½ tíma.  Ég er samt með kenningu á þessu þróttleysi á laugardagskvöldið... ég hreyfði mig miklu meira í leikjunum heldur en hinir Wink

Næsta mót verður haldið Seyðisfirði og á Egilsstöðum og get ég ekki annað sagt en maður bíði spenntur þangað til.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera tekinn?

Mér finnst þetta svo furðulegt, ég er alltaf stoppaður í tollinum þegar ég er að koma til landsins.  Við Jóna vorum stoppuð á sunnudaginn á leið frá danaveldi, um leið og gæslan rak augun í mig þá var það ekki spurning að ég skildi vera skoðaður.  Töskunum var rennt í gegnumlýsingu og fengu þær svo nett sniff frá hasshundi sem var þarna að störfum.  Ég bjó í DK í tvö ár og þegar ég var að koma heim þá var ég alltaf látinn henda töskunum mínum í gegnumlýsingu og svo tekinn í yfirheyrslu. 

Ég skil ekki af hverju ég lendi alltaf í því að vera stöðvaður.  Er ég með eitthvað eiturlyfja-smyglara-lúkk??  Er maður grunsamlegri en aðrir vegna hversu fallega hjólbeinóttur ég er?  Eða er það rauðhærða... ég meina kastaníubrúnhærða lúkkið sem er að valda þessu?

Ég ætla að láta rannsaka þetta... hringi í Kára Stefáns... du.. du.. du.. du.. það er á tali!

Ég skellti mér í gær niður bensó og fór þar í rútó sem keyrði Ísó þar sem ég er að keppa í blakó á öldungamótó.. er loksins orðinn löglegur svo það þarf ekkert að spá í einhverju kennitölufalsi hahahaha...   Sjáumst í næstu viku.

Góðar stundir

Er tilgangur lífsins að heimsækja baunana?

Ástæða bloggleysi síðustu daga er sú skemmtilega staðreynd að ég hef ekki verið á landinu.  Við Jóna lögðum land undir fót og ferðuðumst til Danaveldis með vinnufélögum okkar og vorum í kóngsins Köbenhavn.  Það var æðislega gaman að fá að spreyta sig í dönskunni aftur, maður bjó þarna í tvö ár svo maður kann alveg orð eða tvö Wink

Við lögðum af stað frá Sigló til Keflavíkur á miðvikudaginn í hádeginu og með okkur í för var par sem ekki vill láta nafn síns getið, svo framvegis skulum við kalla þau…. Telmu og Agga.  Það var stoppað í Borg óttans og hitt Hans og Grétu, a.k.a. Grísalöppu, á Ruby Tuesday og þar sem ég fékk mér einn þann stærsta hammara sem ég hef étið, hann var tvöfaldur og á stærð við höfuðið á 4 ára barni.  En auðvitað kláraði maður burgerinn.  Eftir að hafa skellt þessu í andlitið á sér var haldið til Keflavíkur, en við gistum á Hótel Kefló.

Daginn eftir var svo skellt sér upp á flugvöll og púlsinn tekinn á Fríhöfninni.  Mig langar sérstaklega að hrósa fólkinu sem starfar þar í búðum og börum, allir rosalega almennilegir og með frábæra þjónustulund.  Flugið út var flott og fínt, en parið sem kýs að kalla sig Telmu og Agga var frekar stressað, en þau eru víst haldin því sem nefnt er á latnesku “Flugius hræðslupúkíus” eða flughræðsla.  Við vorum í vél út sem var með snertiskjá fyrir framan mann og gat maður t.d. valið milli sjónvarpsþátta, mynda og tölvuleikja.  Ég horfði á hamfarir Hómers Simpson í þrjá tíma og leið flugið alveg bara einn, tveir og lúdó.  Parið sem vill láta kalla sig Telmu og Agga skjögraði þó út úr vélinni dauðfegið að vera komin út. 

Köben var alveg æði, sumarið byrjað að sýna sig, danska krónan aldrei kostað jafn mikið og mannlífið gjörsamlega iðandi.  Strikið var þrætt hægri vinstri, sem og hið fína moll er nefnt er Fisketorvet og einnig var stærsta moll í Skandinavíu heimsótt en það heitir Fields.  Í Fields styttust lappirnar á mér um ca. 17 cm, þær hreinlega eyddust upp á göngu úr búð í búð.  Við strákarnir nenntum nú ekki að labba úr hverri dömu búðinni í aðra, og úr einni Ecco búðinni í aðra... kem að því síðar… svo við reyndum að vera duglegir í því að fá okkur sæti hér og þar og bragða hinn ljómandi góða danska öl.  Það tókst bara nokkuð vel hjá okkur.  Damaní parinu sem vill láta kalla sig Telmu og Agga virtist hafa fengið það sem nefnt er á latnesku “Flugius eftirklikkíus” því ekkert komst að nema hugsunin að komast í Ecco búð og kaupa Ecco skó.  Eftir að hafa skoðað 79 Ecco búðir á stór-Kaupmannahafnar-svæðinu keypti hún loksins réttu skóna, þeir voru Adidas skór. Grin  Ef Ecco búð er það sem þú leitar að í Köben þá bara bjallaðu.  Wink

Á laugardagskvöldinu borðuðu allir saman á áströlskum stað sem heitir Reef n´ beef, í forrétt emúi, í aðalrétt kengúra og svo var eftirréttur.  Ég á eiginlega ekki til orð yfir að lýsa matnum, ég slefa bara við tilhugsunina.  Ef þú vilt fá eitthvað gott að borða í Köben þá er Reef n´ beef málið.

Sunnudagurinn fór svo í að koma sér heim frá Köben til Sigló, það tók ekki nema 12 tíma takk fyrir takk og var vinnudagurinn í dag gjörsamlega ónýtur. 

Að lokum þá vil ég koma því á framfæri að ef einhvern vantar "gæd" í Köben þá er ég sko rétti maðurinn.  Fólk fær sko miklu meira fyrir peninginn hjá mér og miklu meira að sjá því ég er snillingur í að fara ekki alveg réttu leiðina. Whistling

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eldast?

Ég á afmæli í dag, til lukku ég með þrjátíu árin, athugið að blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir!! 

Úff.. hvað þetta er eitthvað skrítið, ég er búinn að vera tuttugu og eitthvað svo lengi en núna er maður allt í einu kominn á fertugs aldurinn.  Þeir segja það þeir sem hafa gengið í gengum þetta erfiða skeið og hafa farið yfir móðuna miklu sem umlykur fimmtugs aldurinn, að það sé miklu erfiðara að verða þrítugur heldur en fertugur.  Ég vona að það sé staðreynd því mér finnst þetta ekkert sérlega ánægjulegt… mér finnst eins og ég sé að verða… fullorðinn.  W00t

Mér finnst ég samt ekki vera orðinn þetta “gamall”, en þið vitið hvað þeir segja… maður er ekki hótinu eldri en maður segist vera.  Cool

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að fara í hundana?

Ég eignaðist nýjan hund í dag, eða mér líður alla veganna þannig.  Loðni sonur minn, hann Móses, fór í klippingu í dag á Akureyri og þvílíkt breyting á einum hundi.  Handprjónasamband Íslands hefði örugglega getað prjónað lopapeysur á heilan ættbálk í Afríku úr feldinum því það gólfið leit út eins og að heilt rollustóð úr Skagafirði hefði verið rýjað þarna í bílskúrnum.  Grin

Annars var bara fínt á Akureyris í dag, við fórum öll familían ásamt heimiliskettinum sem heitir Fanney og það var auðvitað gert það sama og venjulega, þ.e.a.s. segja farið í Hagkaup, Glerártorg og Bonna… alveg magnað stuð og auðvitað hellingur af Siglfirðingum.  Á leiðinni heim var svo stoppað á Óló og öndunum gefið brauð í góða veðrinu.

Í fyrramálið verð ég með andabringur af nýslátruðu til sölu, til að ná upp í bensínkostnað. Whistling

Góðar stundir

Er tilgangur lífsins að taka bensín?

Þvílíkt veður, svei mér þá, ég held bara að það sé að koma sumar.  Gula flykkið hefur skinið sínu fegursta síðustu daga og fugla kvikindin eru byrjuð að halda fyrir manni vöku á næturnar, svo sumarið virðist vera handan við hornið.  Cool

Eftir að hafa tekið bensín í dag hef ég tekið ferkantaða ákvörðun um að kaupa vespur fyrir mig, Jónu, börnin og hundinn… bílinn verður aðeins notaður á sunnudögum.  Ég fyllti bílinn og það kostaði mig nærri því 9.000.- kall!!! W00t  Þetta er bara lögreglumál.  Police  Að fara á rúntinn er bara orðinn munaður, það er ljóst að maður gerir það ekki á næstunni, alla veganna ekki af illri nauðsyn.  Þarf reyndar að taka smá rúnt til Akureyris á morgun, Móses er að fara í sína fyrstu hársnyrtingu, og ekki veitir greyinu af.  Ég fór með hann í 50 mín göngutúr í gær í gegnum bæinn og Jóna í dag og það tók rúman klukkutíma að þrífa hundgreyið.  Ég þarf að fara eiga gott spjall við tengdapabba og láta hann sjá til þess að það verði farið að sópa göturnar. 

Góðar stundir

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband