Er tilgangur lífsins að fara til sólarlanda?

Svarið er einfalt... nehei!!  Þvílík veðurblíða, 26 gráður sá ég í dag hvorki meira né minna og það lítur út fyrir að það verði ekkert lát á þessu góðviðri alveg fram yfir Verslunarmannahelgi. 

Ef ég myndi fara til sólarlanda núna þá væri það einungis í einum tilgangi, til að kæla mig niður!!

Sjáumst á Síldarævintýri! Wink

Góðar stundir


mbl.is Besta sumar frá 1944
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tilgangur lífsins að vera ofur-bloggari?

Þá er ofur-bloggarinn Daníel mættur aftur, eða ætti ég að segja sofu-bloggarinn því ekki hefur maður riðið feitum hestum eða öðrum búfénaði undanfarið hvað bloggfærslur varðar.  Undecided

Ég hef lent í alls konar ævintýrum frá því ég síðast bloggaði og má þar helst nefna þegar við Móses lágum í grasinu uppi í Hvanneyrarskálinni og fundum einn af þessum fjöldamörgum jarðskjálftum sem hafa verið að hrista upp í Grímseyingum undanfarið.  Þessi skjálfti var 4.7 á richterinn og er ég ekki frá því að mér hafi brugðið eilítið.  W00t
Annað ævintýrið gerðist í amstri dagsins, en þá var ég sestur á hina heilögu dollu og var í þann mund að fara að beita magavöðvunum þreklega þegar ég sá að rúllan var uppurin.  Neyðarstopp takkinn var brúkaður og allt það litla sem var byrjað að gægjast út var afturkallað, þarna lág hreinleg við stórslysi en allt fór nú vel að lokum.  Grin

Dagurinn í dag er annars búinn að vera mjög fínn, það eina sem er út á setjandi er hitinn, en hann hefur bara gjörsamlega verið að drepa mann.  Ég var orðinn hálf eldaður á pallinum í dag.  Þar sem maður er ½ rauðhærður eða með öðrum orðum, með kastaníubrúnt hár, þá líður manni oft bara betur inni í svona veðri.  Garðrottan í manni togar samt svo sterkt í mann að maður getur ekki annað en verið úti, ég bar á mig fljótharðnandi steypu til að brenna ekki.  Ég sé samt einn plús við þetta frábæra veður, maður á ekki í mikilli hættu á að verða fyrir ísbjarnaárás… myndi ég ætla. 

Á morgun ætla ég, lofthræddasti fjallgöngumaður norðan Alpafjalla, að þramma á Almenningshnakkann, vona að þetta verði ekki mín síðasta færsla.  Wink

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera sibbinn?

Gvöð, ég er svo syfjaður að ég get hreinlega ekki hugsað en maður má ekki láta það á sig fá, nú skal bloggað!  Það er liðinn góður tími síðan ég deildi blaðri, bulli og annarri vitleysu með netverjum… svo hérna sit ég í sófanum með eldspýturnar, sem halda augnalokunum, kengbognar og með heilaselluna á yfirvinnukaupi.

Afrekaskráin fitnaði ekki mikið þennan fallega, síðan seinni partinn ekki fallega dag.  Það eina sem ég afrekaði, fyrir utan að troða í uppvöskunarþrælinn, var að kaupa mér verkfæri.  Ég hef sett mér það skemmtilega markmið, þar sem ég á nánast engin verkfæri, að kaupa mér eitt verkfæri í hverjum mánuði.  Ég verslaði bora í dag svo nú get ég borað alveg hægri vinstri í stein og spýtur, það má hreinlega segja að ég geti borað í alla skapaða hluti… nema kannski Jónu. Wink

Augnalokin eru við það að buga eldspýturnar, ekkert annað eftir að eftir en að senda eitt stykki Ryan Seacrest kveðju út í nóttina….. Daníel out!

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að taka þátt í Tour de France?

Hvað er málið með þessa keppni, það eru endalaus hneykslis mál í kringum hana á hverju ári.  Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessir hjólreiðagæjar eru örugglega ekki að metast um tippastærð sturtuklefanum, þeir eru kannski að keppa um tippasmæð.  Getur það verið að ég sé þá búinn að finna keppni sem ég gæti náð árangri í Grin

Ég segi að annað hvort eigi að leggja keppnina niður eða skipta henni upp í tvær keppnir, Tour de France og Tour de France - steroids.

Góðar stundir
mbl.is Ítalskur hjólreiðamaður féll á lyfjaprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tilgangur lífsins að vera þreyttur?

Sumarfríið er búið í bili og var þessi fyrsti dagur í "amstri dagsins" sá erfiðasti frá dögum Amstrad 64K tölvanna.   Ég sinnti auðvitað mínum B-týpu skyldum í gærkveldi og drattaðist ekki fyrr en klukkan 02:00 inn í rúm að lúlla og til að kóróna minn litla og pena svefn þá vatt Móses sér framúr kl. 05:00 og kúkaði á gólfið í stofunni, það sem þessi hundur er dannaður  Tounge  Er klukkan hringdi kl. 07:25 var eins og hljómsveitarúta Rolling Stones ásamt sautján átján-hjólatrukkum innihaldandi sviðsmyndina þeirra hefði keyrt yfir mig.   Pinch

 

Það liggur við að maður skelli sér í draumalandið eftir Simpsons í kvöld, spurning að reyna að þrauka fram yfir Vini.

 

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vera veiðimaður?

Ég hef ekki riðið feitum hesti því ég er ekki sú týpa sem fílar svoleiðis, en ég hef heldur ekki riðið feitum hesti undanfarin ár þegar kemur að silungsveiðum.  Líkt og síðasta sumar þá hef ég týnt orma í garðinum um leið og ég hef verið að garðálfast og er ég kominn með heilt fjölskyldumót af ormum.

Ég fór í mína fyrstu veiðiferð í gær út í Hólsá og ætlaði ég bara að kíkja í klukkutíma.  Ég byrjaði uppi hjá ræsinu og ég hefði nú alveg eins getað mígið í plastmál og sett öngulinn þar ofan í.  Þar sem ég get verið þrjóskari en andskotinn enda í nautsmerkinu, gafst ég ekki upp á ræsinu fyrr en eftir tæpan klukkutíma, ormurinn var þá ennþá í fullu fjöri á önglinum svo ég sleppti honum og var hann frelsinu feginn. 

Frá dauðanum í ræsinu var haldið niður á brú, þar sá maður bráðina syndandi í sakleysi sínu um allt hreinlega.  Ég fann mér nýjan fórnarorm, þræddi hann á öngulinn og horfði á silungana hunsa þetta bráðgirnilega hlaðborð sem sat sem fastast á önglinum.  Eftir rúman hálftíma sá ég að ormurinn var bara ekki að fúnkera, það næsta sem ég komst að veiða á herra Ormar var æðarkolla.  Tvær kollumömmur droppuðu við með ungana sína og önnur kollumamman kafaði niður og kom upp með orminn minn, mér til mikillar ánægju.  Eftir að hafa fylgst með kollunum fylgjast með mér áttaði ég mig á hvað þær voru að gera, þær voru að sína ungunum sínum hvernig ekki ætti að bera sig að við ætisleit og hlógu þær mikið af mér.

Nú voru góð ráð dádýr, ég ákvað að breyta um beitu og var sama sagan með þennan orm og hinn fyrri, hann fékk að fara aftur í moldina og lifir hann góðu lífi í dag.  Ég náði í stóru byssurnar, a.k.a. the big guns, ég þræddi upp á girnið hinn goðsagnakennda svarta Toby spún.  Það var ekki að spyrja að því, mér leið eins og einum af Chippendale strippurunum, þvílík athygli sem ég fékk frá félögum mínum sem svamlandi voru í ánni.  Ég var búinn að semja heila bloggfærslu í hausnum á mér um hve vonlaus veiðimaður ég væri þegar allt í einu bitið var á.  Ég átti ekki til orð, tveggja tíma pælingar um næstu bloggfærslu í súginn.  Á önglinum var grillhæf bleikja, er ég hafði náð henni upp á land og losað öngulinn úr henni áttum við smá móment… við horfum djúpt í augun á hvort öðru og á því augnabliki áttaði ég mig á að þessa fallegu bleikju gæti ég ekki aflífað.  Í góðmennsku minni gaf ég henni áframhaldandi líf, eins og ormunum mínum tveimur.  Þessi klukkutíma veiðiferð endaði sem þriggja þriggja tíma veiðiferð, allt vegna minnar yndislegu þrjósku.

Ég skrapp svo aftur í kvöld að veiða, eftir að hafa slætt ána fram og til baka með hinum svokallaða gosagnakennda Toby spún skipti ég yfir í fjölskyldumótið herra Ormars.  Nartað var í herra Ormar hér og þar en ekkert gekk.  Þá var ákveðið einróma af sjálfum mér að næsta kast yrði mitt síðasta, ég horfði á flotholtið líða um ána, setti svo stöngina niður til að laga girnið þegar allt í einu allt fór af stað.  Viti menn, eftir nokkurra mínútna baráttu dró ég á land 4-5 punda bleikju takk fyrir.  Ekkert móment átti sér stað eins og í gær og aflífaði ég bleikjuna á mannúðlegasta hátt sem ég veit um, með því að leggja höfuð hennar ítrekað þéttingsfast við stein.  En ég á samt eftir að eiga gott móment á morgun er ég legg bleikjuna á grillið. 

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eiga góða granna?

Góður granni er gulli betri, það hef ég alltaf sagt, alla veganna í heila viku.  Ég, eða öllu heldur Jónan mín, gerði frábæran samning við grannan minn í vestur átt, hann Jóstein.  Hinn frábæri samningur sem var handsalaður í votta viðurvist og þinglýstur af sýslumanni hljóðar þannig að minn góði granni aðstoðar mig við að skella upp skjólvegg en ég mun aðstoða hann í staðinn við að taka garðinn hans í gegn.  Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar ég þarf að taka upp hamar, borvél eða eitthvað sem tengist þeirri fornu iðngrein sem nefnist handsmíðar, þá er ég alveg eins og hundurinn, gjörsamlega steingeldur!!  Þegar smíðaverk er fyrir höndum á heimilinu þá finn ég fyrir magaverk, hausverk, málverk og túrverk, allt blandað saman í allsherjar verkjaboozt, borið fram með klaka og blönduðum ávöxtum.  Pinch

Minn stærsti sigur á sviði handsmíða kom líklega þegar ég rak niður fjóra staura, negldi spýtur við þá og kalla það vegg.  Þetta gerðist síðasta sumar og ég sé ekki betur en að ég þurfi að fara endurskoða þetta núna því þessi svokallaði veggur liggur upp við moldarbakka sem er á hraðri niðurleið og er að taka vegginn með sér.  GetLost

Við Jósteinn, og þá meina ég eiginlega aðallega Jósteinn, erum búnir að koma upp heilum vegg og er Mr. J búinn að aðstoða mig við að græja vegg númer tvö þannig að ég ætti að geta klárað hann sjálfur… vonandi.  Grin

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að verða pabbi?

Eins og kannski margir vita þá verð ég faðir í fyrsta sinn innan skamms, 22. september er áætlaður komudagur á jörðina hjá kauða.  Kauða segi ég, já þetta er strákur eins og ég fann á mér frá upphafi og eftir að hafa farið í tvisvar í sónar og heyrt hann tala í gegnum hlustunartækið hjá ljósunni þá er það ljóst að hann er alveg eins og ég.  Grin

Ég hef átt ágætis undirbúningstímabil, rekstrarleigubörnin hafa kennt mér dýrmætar lexíur sem ég hef kannski ekki alveg lært að fullu ennþá og við rakkinn Móses höfum gengið í gegnum andvökunætur og ýmislegt fleira á þessu ári.  Maður er nú samt frekar stressaður yfir þessu öllu og í staðinn fyrir að hanga á ljósbláusíðunum þá liggur maður slefandi yfir síðum eins og ljosmodir.is, doktor.is, babyzone.com, parentingweekly.com, childbirth.org, hvuttar.net og fleiri álíka gáfulegum síður.  Þær hafa nú reyndar hjálpað mikið til og er maður orðinn margs vísari, bæði um barna- og hundauppeldi.  Wink

Er þetta kom allt í ljós, þann 30. janúar kl. 17:15 eða 45 mín. fyrir blaktíma sem varð frekar lélegur af minni hálfu fyrir vikið, þ.e.a.s. að það væri kominn “mini me” þá var það ákveðið að orðið “bumbubúi” yrði aldrei nokkur tímann notað, það er einfaldlega hætt að vera sætt og skemmtilegt lengur.  Sama sagan er með barnaland.is, ég mun frekar koma nakinn fram en að opna síðu þar… reyndar hafa dömurnar verið að græða þokkalega á því að gera það, spurning samt hvort ég þyrfti ekki að borga með mér.  Blush

Nú skal vera farið í ferð til draumalandsins því leggi og liði þarf að hvíla fyrir garðvinnuna á morgun.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að ráðast á verslunarmiðstöð?

Það er nú létt geggjað þetta lið í Ísraelsher, hver ræðst eiginlega inn í verslunarmiðstöð??  Kannski hafa verið hættulegar sprengi-útsölur hjá Hamas liðum, hver veit.
Ég sé þetta alveg fyrir mér, þetta ku hafa verið kvennaherdeild innan hersins sem réðist til atlögu og það hefur verið útsala í H&M, 50 – 70% plús extra 20% afsláttur við kassa.  Maður á kannski von á því að sjá herkonur í tískuklæðum frá H&M vera að brytja niður mann og annan með hríðskotarifflum þegar maður sér fréttamyndir frá Vesturbakkanum.  Það hafa kannski verið einhverjir karlmenn þarna með í för því ég hef komist að því að eigin raun að karladeildin í H&M er alveg frábær.  Það er hægt að fá gasalega lekker föt þarna á viðráðanlegu verði.

Ísraelarnir réðust víst inn í fimm fyrirtæki og stofnanir í viðbót.  Ef ég ætti að giska þá þá kemur fyrst upp í hugann að þeir hafi ráðist á Ríkisskattstjóra Vesturbakkans – hver vill eiginlega borga skatta, kynlífstækjabúðina Rómeó og Júlíu – kynlífstæki eru víst ekki í tísku á Vesturbakkanum, N1 – hefur hækkað bensínið upp úr öllu valdi, Europris – þú kaupir borvél í dag, hún verður ónýt í gær, og matsölustaðinn Eat at Hamas – segir sig nokkuð sjálft.

Svona er lífið á Vesturbakkanum, það á kannski ekki að vera að gera grín af þessu en ástandið þarna er vægt til orða tekið eins stór og ljót vitleysa.  Það er svo langt síðan að þetta lið byrjaði að stríða að það man eflaust ekki eftir því hvað olli átökunum til að byrja með.

Hlustið á John Lennon, Give peace a chance!

Góðar stundir


mbl.is Ráðist inn í verslunarmiðstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tilgangur lífsins að takast á við eigin ótta?

Ég tókst á við eina af mínum miklu hræðslum á föstudaginn, en seint á síðustu öld, líklega rétt fyrir aldamótin, gekk ég í hóp lofthræddra sála.  Ég lagði af stað í fimmtu fjallgöngu sumarsins ásamt Siggum tveim og nú var ekkert smá fjall sigrað, fjallið sem setur svo mikinn svip á fjörðinn fagra, sjálf Hólshyrnan.

Við lögðum af stað úr Skútudal, fórum á toppinn og komum niður í Hólsdal og ég er alls ekki frá því að uppgangurinn hafi verið töluvert erfiðari en niðurgangurinn.  Niðurgangurinn var sérstaklega skemmtilegur því ég og annar Sigginn gengum í barndóm með hinum Sigganum og renndum okkur á óæðri endanum niður stóran snjóskafl sem lá flatmaga í hlíðinni.  Það var alveg æði en ég fann ekki fyrir afturendanum þegar niður var komið því það sem var á milli hjarnsins og því næst heilagasta voru næfuþunnar íþróttabuxur og ívið þynnri naríur.

Þar sem ég er hálf rauðhærður, nánar tiltekið kastaníubrúnhærður, þá á ég það til að sólbrenna ef ég heyri af sól í Skagafirði.  Sólin hins vegar skein sínu skærasta bak við skýin þennan annars fallega föstudag en einhvern vegin í ósköpunum tókst mér samt að sólbrenna, og það ekkert smá.  Ég var gjörsamlega orðinn eins og vandræðalegt jarðaber er kvölda tók. 

En það var æðislegt að standa á toppnum, ég horfði stoltur yfir bæinn með kúkinn í buxunum en ég myndi segja að 30% hafi verið lofthræðsla og 70% hafi verið sú staðreynd að ég var alveg að kúka á mig.  Þrátt fyrir að mér hafi verið boðið bréf af Siggunum þá lagði ég nú samt ekki í það að kúka á hyrnunni, ég átti hinsvegar eðalstund á dollunni er heim var komið. 

Ég segi því svo að það sé tilgangur lífsins að takast á við eigin ótta, bara ekki gleyma klósettpappírnum.

Góðar stundir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband