Ég er með blogglegt harðlífi og er þar af leiðandi ekki að koma neinu gáfulegu niður á blað, eða réttara sagt niður á word skjal. Þetta er alveg djöfullegt ástand. Ég gæti svo sem talað um veðrið sem var alveg frábært hér í firðinum í dag. Það er löngu sönnuð staðreynd að ef íslendingar hafa ekkert til að tala um þá er alltaf hægt að minnast á þetta blessaða veður, það er jú aldrei eins á þessu blessaða skeri okkar. Það er eins gott að maður býr ekki í Sahara eyðimörkinni, ekki tala þeir um veðrið þar, þar er alltaf heitt.
Vá maður, þessi bloggfærsla er á góðri leið með að verða sú lélegasta sem birst hefur á veraldarvefnum síðan fyrir myntbreytingu. Hún er á hraðri leið með að verða jafn gáfuleg og þessar fréttir sem eru að birtast á mbl.is þessa dagana og eru alveg gerilsneyddar af tilgangsleysi ef svo má að orði komast. Nú ef það má ekki komast svona að orði þá tek ég þetta að sjálfsögðu til baka.
Já fínt, já sæll, það er greinilega lægð yfir bloggaranum, ekkert froðudiskó á þessu hóteli. Það er best að fara að koma sér í draumalandið, í fyrramálið bíður mín fjallganga en nú skal lagt á Hólshyrnuna með nesti og notaða skó.
Góðar stundir
Bloggar | 4.7.2008 | 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já, góðan daginn... þvílíkt sem þessi frétt stórmerkileg og efast ég ekki um að hún mun skekja heimsbyggðina. Ég er bara alls ekki að fatta af hverju verið er að birta þessa frétt, var þetta kannski í fyrsta skiptið sem morð var framið í Rússlandi? Hefði þessi ágæti maður verið skotinn í Noregi, hefði þessi frétt verið þá svona svaðalega merkileg í augum fréttasnápa mbl.is?
Fyrr má nú vera lægð yfir landinu. Ef fréttasnápum mbl.is vantar þrusufrétt fyrir morgundaginn þá geta þeir bjallaði í mig. Ég hef í hyggju að prumpa þreklega þar sem ég sit í sófanum og er ekki vitað með vissu hvort það muni fylgja rósarilmur með blæstrinum.
Góðar stundir
Norðmaður myrtur í Rússlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 2.7.2008 | 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Blessað veðrið er enn að gera það gott í sumarfríinu mínu. Ég hljóp á eftir ruslatunnunni í dag en hún rauk af stað í mígandi rigningunni. Ég veit ekki hvort þetta var déskotans norðangarrinn sem feykti henni um koll eða ást hennar á ruslakassanum sem á heima ská á móti. Gildir einu
þetta veður er bara rugl, ég er farinn að halda að ég hafi sofnað í gær og vaknað í október!!
En að öðru, Móses fór í ferðalag í dag til Akureyrar og hitti dýralækni. Greyið kallinn, hann kom miklu léttari heim því mamma hans lét taka undan honum jólakúlurnar. Ooohhh
hvað ég finn til með honum!! Síðan hann vaknaði úr rotinu hefur hann labbað eins og fjórfættur hobbiti því það tekur svo mikið í saumana. Ég er ekki viss hvort húsmóðirin hafi þetta í hyggju fyrir restina af kynþroska karlmönnunum á heimilinu þ.e.a.s. mig, ég vona ekki. En þar sem maður er búinn að planta kökunni í ofninn þá eru jólakúlurnar mínar kannski í hættu. Ef þið sjáið mig röltandi um í hobbita stellingum þá er nokkuð ljóst að mér hefur verið boðið til dýralæknis á Akureyri.
Ég er að fara að lúlla núna, vinsamlegast vekið mig ef þið sjáið fram á að ég muni sofa af mér jólin.
Góðar stundir
Bloggar | 2.7.2008 | 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sumarfrí, úti fyrir er skítakuldi að mér sýnist, nettur brasilískur kaffiilmur stígur úr kaffibollanum sem ber nafn mitt og líkt og í gær þá er Eddie Vedder að syngja Guaranteed, að þessu sinni í gegnum túbbuna (you tube), blogglegt andleysi virðist hrjá bloggarann. Heimiliskötturinn er kominn, hún heitir Fanney og er söluturnísk smokey-shop læða sem er komin til ára sinna. Best að fara út í garð.
About six hours later
.
Þá er maður kominn inn aftur, hættur að garðálfast í bili. Það er alveg merkilegt að þegar ég tek upp á því að fara út í garð, þá lendi ég iðulega í bölvuðu basli með koma mér inn aftur. Getur verið að ég sé haldinn krónískri garð fíkn??
Góðar stundir
Bloggar | 1.7.2008 | 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það viðrar því miður ekki vel til fjallaferða í dag eða annarrar útiveru og er það nokkuð ljóst að við félagarnir, sundlaugarstjórinn og ég, förum ekki í fjallaferð þennan daginn en við vorum búnir að planleggja að labba á Hólshyrnuna ásamt hundunum okkar. Ferðinni var reyndar aflýst áður en ég komst fram úr rúminu með sms-samtali sem fór okkar á milli og hljómaði svona:
Sundlaugarstjórinn skrifar:
Nú af himni mokast mjöll,
manndóms raunum kvíðum.
Ef að nú skal fara á fjöll,
förum við á skíðum.
Daníel svarar:
Í rúminu þreyttur í leti ligg,
lít á fljóðið mitt fríða.
Fjöllin köld og helst ég hygg,
að heima vera og... ryksuga.
Fjallaferðin bíður því betri tíma enda er kannski ekki tími í svoleiðis í dag þar sem síldarvertíðin hjá mér er að hefjast. Já, það er fyrsta söltun á Síldarminjasafninu í dag og auðvitað er maður til í slaginn. Ég er að byrja mitt 4 ár á planinu góða og alltaf er þetta jafn gaman.
En jæja, kaffið er orðið kalt, uppvöskunarvélin er búin og Eddi Vedder er orðinn pínu þreyttur á að endurtaka endalaust sinn ólöglega flutning. Það rignir enn, snjóar í fjallatoppana og mér er ekki að takast að bæta mínum einfalda aulahúmor við þessa færslu, mómentið er búið.
Góðar stundir
Bloggar | 28.6.2008 | 20:14 (breytt kl. 20:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég man þegar ég sló í fyrra hjá fyrrverandi fasteign minni við Eyrargötuna. Júní var hálfnaður og ég var byrjaður að gíra mig upp í fyrsta slátt ársins. Er uppgíringin komst í hámark var hafist handa, það var í vikunni eftir verslunarmannahelgi. Er ég mætti á svæðið þá ráfaði ég aðeins um landareignina og lagði sláttuorfið og bensínið frá mér á grasflötina, rölti svo í bílinn til að ná í plastpoka. Ég eyddi næsta hálftímanum í að leita að orfinu, því eins og allir vita að þá er verslunarmannahelgin í ágúst og grasið var orðið svo mikið á lóðinni að ég hefði getað séð einum bóndadurgi fyrir heyi í heilan vetur.
Eftir að hafa náð í málmleitartæki og fundið sláttuorfið hófst slátturinn og það var slegið, fyllt á bensínið, slegið, fyllt á bensínið, slegið, fyllt á bensínið og slegið. Eftir fimm stunda slátt var maður orðinn pungsveittur í orðsins fyllstu og tíminn langt genginn í ókristilegan tíma. Sláttuorfið var sett niður og staðan á lóðinni tekin. Ég trúði ekki mínum eigin augum, ég var pung sveittur í orðsins fyllstu og rétt rúmlega hálfnaður!!!
Nú var bara um eitt að ræða, ég sá fram á að það tæki mig nokkur ljósár að klára verkið svo ég hringdi í fasteignasölu, setti húsið mitt á sölu og innan skamms þá þá frumskógurinn kominn í annarra eign. Þvílíkur léttir!!!
Fyrir fólk með sláttukvíða þá er þetta málið!!
Góðar stundir
Garðsláttur á ókristilegum tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 26.6.2008 | 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er undir mikilli pressu, aðdáendaklúbburinn minn sem samanstendur alla veganna af einum, kannski tveimur einstaklingum hefur sett pressu á mig um að blogga. En um hvað bloggar wanna-be atvinnubloggari með ritstíflu?? Em í fótbolta? Ísbjarnarblús? Fall krónunnar?
Ég leitaði á veraldarvefnum að umfjöllunarefni og rakst ég á þessa frétt á Mbl.is um að glaðlyndir fara sér fremur að voða en fýlupokar. Rannsókn var unnin í Kaliforníu-háskólann skilaði þeim niðurstöðum sem benda til þess að meiri líkur eru á að mjög glaðlynt fólk látist fyrir aldur fram en þeir sem eru þyngri í skapi. Ég veit ekki hvort sé um eitthvað gleðiefni að ræða en ég er ekki frá því að ég kannist við nokkra einstaklinga sem munu væntanlega lifa að eilífu.
En þessar niðurstöður mjög sjokkerandi fyrir mig þar sem ég tel mig vera frekar léttlyndan að eðlisfari, svona oftast alla veganna. Samt ekki á morgnanna, ég er ekki mjög mikill morgunhani. Það kemur reyndar fyrir líka að ég sé pirraður á kvöldin eftir langan og strangan dag þar sem amstur dagsins og hobbyin mín hafa tekið frá manni alla orkuna. Ég er svo ekki frá því þegar ég kafa djúpt hugskot mín að stundum kemur það fyrir að skapið sé ekki upp á marga fiska eða aðrar dýrategundir á tímabilinu milli hádegis og kvöldmatar.
Já, sem sagt, þessar niðurstöður eru ekki lengur sjokkerandi fyrir mig, þær eru orðnar meira ruglandi. Er ég kominn á lista með íslenskum ísbjörnum yfir kvikindi í útrýmingarhættu eða á ég í vændum líf svo mun vara svo lengi að elstu menn munu ekki muna eftir því??
Úffff
spurning um að láta geðgreina sig svo niðurstaða fáist.
Góðar stundir
Glaðlyndir fara sér fremur að voða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 25.6.2008 | 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sem barn var ég rauðhærður en í dag er hárið á mér komið út í kastaníubrúnan lit. Billa frænka spurði mig um daginn hvar rauða hárið væri og ég var snöggur að svara að það væri að neðan
Það hefur ekki verið neitt grín að vera rauðhærður í gegnum tíðina, við rauðhærðir höfum mátt sæta ofsóknum í margar aldir og það hefur verið níðst á okkur fram úr hófi.
Er galdrafárið hófst á Íslandi um 1654 vorum við brenndir mann fram að manni en fyrsta brennan fór reyndar fram 1625 og var það Jón Rögnvaldsson sem grillaður var í Svarfaðardal í Eyjafirði, í fyrri og seinni heimstyrjöldinni voru rauðhærðir notaðir sem beitur til að lokka Þýskar leyniskyttur úr fylgsnum sínum, en á sama tíma notuðu Japanir rauðhærða til að drýgja hundakássur sínar. Spánverjar fundu upp spánskuveikina og herjaði hún á árunum 1918 1919 eingöngu á einstaklinga í rauðhærða stofninum og einstaka ljósku sem vissi ekki betur. Svo áfram sé talið þá notuðu bændur á þar síðustu öld rauðhærða sem hákarlabeitu þegar illa áraði og eftir að Antífokkus IV Epífanes hætti ofsóknum á hendur Gyðingum á annarri öld f. Kr. þá snéri hann sér að rauðhærðum. Svona mætti lengi telja og er ég sammála því sem Mick the redhead Hucknall í Simply Red sagði, en honum varð að orði að þeir sem níddust á rauðhærða stofninum væru ekkert annað en rasistar
heyr heyr Mikki!!
Ég hef ekki farið varhluta af þessu og þurft að ganga í gegnum ýmislegt á mínum 210 hundaárum. Manni var auðvitað aðeins strítt eins og gefur að skilja þegar ég var á mínum sokkabandsárum og enn þann dag í dag má ég ekki frétta af sól í Skagafirði því þá sólbrenn ég á nefinu.
Það er, þrátt fyrir allt og allt, rauðhært ljós við endann á göngunum. Í dag hafa rannsóknir sýnt fram á, að það er bara nokkuð eftirsótt að vera partur af hinum rauðhærða kynstofni, það eru bara mjög fáir sem hafa tekið eftir því. Það hefur komið í ljós að rauðhærðir eru með þykkasta hárið og samkvæmt ítarlegri rannsókn sem framkvæmd var í Hannover í Þýskalandi þá eru rauðhærðir framar öðrum háralitum og hárlausum einstaklingum í fræðum sem stundaðar eru svefnherbergjum og öðrum herbergjum.
Go reds!!
Góðar stundir
Bloggar | 22.6.2008 | 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Síðan síðasta færsla var hraðrituð þá hefur eigandi þessarar bloggsíðu ferðast um 850 km.
Ég og Sölku skinnið lögðum upp í langferð og keyrðum sem leið liggur yfir Lyngdalsheiðina að Apavatni en þar hittum við fyrir afkomendur ömmu Tóllu og afa Alla á okkar ekki-árlega fjölskyldumóti. Það er deginum ljósara að maður velur sér ekki ættingja og þegar ég hugsa um ættingja mína þá er ég ekki frá því að Apavatn hafi verið fullkomin staðsetning, að nafninu til.
Ein merkileg staðreynd, á leiðinni frá Sigló til Apavatns mættum við 1.682 farartækjum, þ.e.a.s. bílum og mótorhjólum. Okkur til dundurs í þessa 430 km. þá töldum við farartæki og ég er ekki frá því að þetta hafi stytt okkur stundirnar. Pissustopp voru á Blönduósi og í Borgarnesi og svei mér þá ef ég lýg, þá var sama pissulyktin inni á klósettunum í dag og var á föstudaginn. Salernið á Hyrnunni virtist ekkert hafa verið yfirfarið þrátt fyrir þessa fínu tilkynningu sem var á þar inni því sami munntóbakspokinn var í klósettskálinni í dag og var þar á föstudaginn
æði!!
Fjölskyldumótið fór vel fram og var gaman að hitta þessa ættingja sína sem maður sér nú ekki alltof oft. Veðrið spillti ekki fyrir, það var það gott að mér tókst í fyrsta skipti á ævinni að sólbrenna fyrir hádegi. Það er reyndar möguleiki að ástæðan fyrir því sé að það hafi ekki gerst áður að ég hafi komist út fyrir hádegi á mínum sólríku frídögum. Á staðnum voru leiktæki fyrir krakkana sem voru í stanslausri notkun og ýmislegt var brallað. Við fórum m.a. og skoðuðum Laugarvatnshelli og þar komust fjölskyldumótsgestir að því að þar býr eitt stykki jólasveinn, Apavatnsapinn kom í heimsókn og svo var sungið og trallað og leikið sér.
En það er víst rétt það sem skáldið sagði maður velur sér ekki ættingja!
Góðar stundir
Bloggar | 16.6.2008 | 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég er í sumarfríi og það er svo mikið að gera hjá mér að ég hef varla tíma til að blogga. Ég er að sjálfsögðu búinn að hamast í garðinum og þá á ég ekki við um neitt kynferðislegt, ná í rekavið niður í fjöru, ekkert kynferðislegt þar heldur á ferðinni, búinn að fara með Móses í tvær fjallaferðir og sú þriðja verður farin í fyrramálið, enn og aftur ekkert kynferðislegt, búinn að vera viðloðinn tvö barnaafmæli og eitt fyrir fullorðna því Sölku skinnið og Jóel áttu afmæli um daginn, búinn að brjóta niður vegg í eldhúsinu og á eftir að mála gera og græja margt varðandi það, gæti orðið eitthvað kynferðislegt.
Þetta er náttúrulega bara bull, hverslags frí er þetta eiginlega?? Maður hefur ekki einu sinni náð að glápa almennilega á EM. Ég er farinn að hugleiða það þreklega hvort ég þurfi ekki bara að taka mér frí eftir fríið svo ég geti hvílt lúin bein.
Góðar stundir
Bloggar | 11.6.2008 | 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)