Er tilgangur lífsins að gleðilegt nýtt ár?

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá hefur heimsbyggðin tekið skrefið yfir þröskuldinn hjá árinu 2009, gleðilegt nýtt ár heimsbyggð.  Ég vona kreppulega séð að salarkynni ársins 2009 verði ívið glæstari en 2008.  Mig langar til að þakka fyrir lestra, athugasemdir og fyrir báðar kvittanirnar í gestabókina á liðnu ári.

Áramótin liðu mjög þægilega framhjá, við skötuhjúin snæddum unaðslegt hvítlauks lambalæri undir röfli Geirs Haarde, fórum yfir árið með fréttamönnum Stöðvar 2 og RÚV og hlógum svo af skaupinu sem kom skemmtilega á óvart, það var bara virkilega fyndið þetta árið.  Rekstrarleigubörnin Salka og Jóel voru hjá pabba sínum á Selfossi og Grísalappan Anna var að ergja Flórídabúa í USA, þannig að ég keypti ekki eitt rakettukvikindi og héldum við Jóna, Jörgen Jón, hundspottin Móses og Muggur og Kjartan kanína okkur bara innandyra í kósýheitum par exelans og nutum flugeldasýningarinnar.  Já ég er ekki frá því að kreppan hafi sett svip sinn á þessi áramót því 10 – 15 mín. eftir að nýja árið var gengið í garð var komin þögn í fjörðinn.

Nýja árið hefur farið gríðarlega rólega af stað, ég hef ekki hreyft á mér rassgatið nema í ýtrustu neyð, þ.e.a.s. til að borða og kúka.  Sólarhringnum hefur maður snúið gjörsamlega við og ekki nóg með það, heldur er maður byrjaður að éta á skrítnum tímum sólarhringsins.  Ég var til að mynda að enda við að sporðrenna fjórum mjög fallega ristuðum brauðsneiðum með hreindýrapaté og drottningarsultu, sjúklega gott í kroppinn.  Muggur var að enda við að hlanda á útrásarvíkingsandlitið á Jóni Ásgeiri sem liggur marflatur á gólfinu framan á sorpritinu DV og þá tel ég að það sé kominn tími á að hunskast inn í rúm. 

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband