Er tilgangur lífsins að eiga gleðileg jól?

Gleðilega hátíð kæru netverjar og verjur.  Það er ekki laust við að maður hafi haft það með eindæmum gott það sem af er jólahátíðinni, það var étið á sig gat í gær, aðfangadag, og aftur í dag, stefnan er svo sett á að éta á sig gat á hverjum degi fram á nýtt ár.  Eftir daginn í dag er kósí sófinn minn kominn með legusár og því mun verða viðhaldið eitthvað áfram. Wink

Á aðfangadag fór ég minn hefðbundna jólapakka og kortarúnt en í mínum huga er það ómissandi forveri jólanna.  Ég er ekki mikið fyrir að henda kortunum bara inn um lúguna heldur banka ég yfirleitt og afhendi viðkomandi kortið.  Það er bara svo mikil stemming yfir þessu, allir í góðu skapi og jólakveðjurnar fljúga fram og til baka. Það hefur svo verið siður að stoppa hjá Kristínu frænku, og Fríðu frænku áður en hún flutti, og fá sér kaffi og hollustu konfekt.
Um klukkan 18:00 hef ég svo opnað jólakortin mín og áttað mig á hverjum ég hef gleymt að senda.  Þessi jól eru öðruvísi en öll önnur því ég er nýlega búinn að eignast tvo syni, annan loðinn, hinn ekki, og það hefur ekki ennþá verið fundinn tími fyrir jólakortalestur.  En ég er alveg agalegur þegar kemur að jólakortasendingum, það skal alltaf einhver gleymast.  Fyrir þá sem ekki fengu þetta árið, þið fáið kort á næsta ári Wink
Á jólunum gerast kraftaverk bæði stór og smá og upplifði ég eitt stórt.  Móðir mín og faðir hafa snætt jólamatinn í sínu koti allan sinn búskap, sem spannar hátt í hálfa öld.  Þetta aðfangadagskvöld snæddu þau jólamatinn hjá Spariunganum sínum og í mínum huga er hrun bankanna í landinu smáfrétt miðað við þennan stórviðburð. 

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá á ég það til að vera snillingur þegar ég tek mig til.  Mitt síðasta snilldarverk framkvæmdi ég í jólastressinu við gerð pistilsins sem ég sendi með jólakortunum.  Haldið að ég hafi ekki gleymt, þrátt fyrir ítarlega ritskoðun, að setja nafnið á sköllótta syni mínum undir jólakveðjuna, en þar voru allir á heimilinu taldir upp, meira að segja hundarnir og kanínan.  Ef maður á ekki eftir að fá að heyra það á nýja árinu, þá veit ég ekki hvað.

Jólabloggið verður ekki lengra í bili góðir hálsar og kveð ég ykkur með jólakveðjunni sem ég set í hvert einasta jólakort og hljómar þannig:

Megi friður jólanna veita yl, birtu og góðar minningar.

Góðar stundir

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

já slæmt er það Danni minn þegar maður gleymir að telja upp lítinn snáðan:) en eins og þú segir þá er að þetta blessaða jólastress:) alltaf gaman að lesa þetta blogg þitt, ótrúlega góður penni:) vona að þú og fjölskyldan hafi haft það gott um hátíðarnar og gleðilega hátið:)

Þura (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 22:04

2 identicon

Þetta er hrikalega fyndið að þú skildir gleyma litla greyjinu.  Sá á eftir að þvo þér upp úr þessu seinna.

Óska þér og þinni fjölskyldu gleðilegra jóla.

Perla (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 07:23

3 identicon

Daníel þú ert ekki HÆGT......að gleyma barninu!!!!!!!!!

Dóra (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband