Er ég leit á stjörnuspá dagsins í dag tók ég ferkantaða ákvörðun, ég setti mér það markmið að hafa samskipti við sem fæsta í dag og ekki fara út fyrir hússins dyr en hún hljómaði svona:
Naut: Einhver vandræði koma upp í samskiptum þínum við aðra þannig að þú þarft að leita þér að bandamanni.
Þetta herkænskubragð mitt tókst með eindæmum vel þar til hungrið byrjaði að segja til sín, því fyrir utan að hafa farið huldu höfði í smá barnaskutlerí þá fór ég ekki út fyrr en að tengdó náði að lokka mig með því að bjóða mér og minni familíu í syndsamlega góðan skíthoppara í brúnni sósu sem hún eldaði í kvöldmat.
Er heim var komið eftir kvöldmatinn þá tók á móti mér lítið loðið óargadýr sem var orðið eins og Duracell kanína á spítti, stútfullt af orku og þurfti nauðsynlega að komast út að labba. Ég skellti því ólinni á Móses og við læddumst út í kvöldið og enduðum við uppi á Stóra bola þar sem við virtum fyrir okkur syðsta hluta bæjarins uppljómaðan af jólaljósum
mjög skemmtilegt móment.
Dagurinn fór samt ekki alveg til spillis, þrátt fyrir að ég hafi eytt honum heima, því þessi dagur náði því skemmtilega takmarki að vera þriggja-þvottavéla-dagur hvorki meira né minna en á milli þvottavéla gætti ég að Jörgeni Jóni því mamma hans var meira og minna utan þjónustusvæðis í dag. Mér leið svo eins og Chevy Chase í National Lampoon´s Christmas Vacation í síðasta stórverki dagsins þegar ég setti undursamlega upplýsta jólabjöllu á skjólvegginn bak við hús, hún tekur sig bara mjög skemmtilega út. Ef þið hafið ekki séð Christmas Vacation þá skora ég á ykkur á að taka hana á leigu eða downlóda henni löglega eða jafnvel ólöglega og horfa á hana, þetta er myndin sem kemur jólaskapinu í rétta gírinn.
Ég náði ekki að lifa alveg eftir stjörnuspá dagsins en það kom ekki að sök, enda ætti maður kannski ekki að taka alltof mikið mark á þessu.
Góðar stundir
Flokkur: Bloggar | 8.12.2008 | 00:27 (breytt kl. 12:10) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.