Haustið er að ganga í garð og það þýðir bara eitt
það fer að gefast tími til að blogga. Og þó, eins og alþjóð líklega veit þá á maður von á erfingja svo heima fyrir hefur verið nóg að gera, inni og úti. Eins og síðasta sumar hefur maður verið eins og moldvarpa í garðinum og það mun halda áfram þangað til veðrið verður orðið óþolandi. Ég get með fullum hálsi sagt að ég sé orðinn fíkill og garðurinn er dópið mitt. Ég upplifði það um daginn að geta ekki haldið áfram í garðinum vegna myrkurs
krrrreisí!!
Ég hef komið sjálfum mér skemmtilega á óvart í sumar með tvennum hætti. Fyrir það fyrsta er lofthræðslupúkinn ég, búinn að vera að arka á fjöll í allt sumar. Ég kom svo fjölskyldu minni skemmtilega á óvart þegar ég tók upp hamar, sög, blýant og hallarmál, sem sýnir hallann mismunandi eftir hvernig maður snýr því, frá IKEA, borvél frá Europris og reisti eitt stykki ruslatunnuskýli með hjólastöndum. Ég er ekki frá því að menn og konur í familíunni hafi misst legvatnið við þessi tíðindi.
Já og talandi um legvatn, ljósmæður eru á leið í verkfall á morgun. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka ljósunum kærlega fyrir að auka á stress mitt, án ykkar væri ég ekki kominn með magasár og stífkrampa í axlirnar, en gangi ykkur samt vel elskurnar og ekki hugsa of mikið um mig. Ég er búinn að redda mér handklæðum, flatkjöftu, soðnu vatni sem ég geymi í ísskápnum og byggingarplasti ef ég þarf sjálfur að koma honum í heiminn hérna heima og er búinn að gera allskonar ráðstafanir. Fæðingin verður að fara fram á Akureyri svo bensíni hefur verið dælt á bílinn, ég er búinn að pakka niður fyrir ferðalag og búið er að panta gistingu fyrir börn, hund og kanínu. Einnig hef ég skipað svo fyrir að Jóna fær ekki lengur að sitja í sófanum, ég vil ekki eiga það á hættu að legvatnið fari ekki í hann.
Eftir sónarinn í dag fékk ég lánaða bíómynd hjá ljósunni svo núna er það bara popp, kók og hin æsilega norska fæðingarmynd Þegar Mats fæddist. Ég vona að það líði ekki yfir mig í sófanum.
Góðar stundir
Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Elsku "garðálfur" ef þér er alvara með skrifum þínum, þá ert þú allt sem konan þín þarf á að halda við fæðingu (svo framarlega að ekkert slæmt komi upp) .. ég hef gert þetta tvisvar án ljósu.. og bara ekkert nema frábær eintök ... Gangi þér ... og ykkur vel
Edda (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.