Er tilgangur lífsins að vera veiðimaður?

Ég hef ekki riðið feitum hesti því ég er ekki sú týpa sem fílar svoleiðis, en ég hef heldur ekki riðið feitum hesti undanfarin ár þegar kemur að silungsveiðum.  Líkt og síðasta sumar þá hef ég týnt orma í garðinum um leið og ég hef verið að garðálfast og er ég kominn með heilt fjölskyldumót af ormum.

Ég fór í mína fyrstu veiðiferð í gær út í Hólsá og ætlaði ég bara að kíkja í klukkutíma.  Ég byrjaði uppi hjá ræsinu og ég hefði nú alveg eins getað mígið í plastmál og sett öngulinn þar ofan í.  Þar sem ég get verið þrjóskari en andskotinn enda í nautsmerkinu, gafst ég ekki upp á ræsinu fyrr en eftir tæpan klukkutíma, ormurinn var þá ennþá í fullu fjöri á önglinum svo ég sleppti honum og var hann frelsinu feginn. 

Frá dauðanum í ræsinu var haldið niður á brú, þar sá maður bráðina syndandi í sakleysi sínu um allt hreinlega.  Ég fann mér nýjan fórnarorm, þræddi hann á öngulinn og horfði á silungana hunsa þetta bráðgirnilega hlaðborð sem sat sem fastast á önglinum.  Eftir rúman hálftíma sá ég að ormurinn var bara ekki að fúnkera, það næsta sem ég komst að veiða á herra Ormar var æðarkolla.  Tvær kollumömmur droppuðu við með ungana sína og önnur kollumamman kafaði niður og kom upp með orminn minn, mér til mikillar ánægju.  Eftir að hafa fylgst með kollunum fylgjast með mér áttaði ég mig á hvað þær voru að gera, þær voru að sína ungunum sínum hvernig ekki ætti að bera sig að við ætisleit og hlógu þær mikið af mér.

Nú voru góð ráð dádýr, ég ákvað að breyta um beitu og var sama sagan með þennan orm og hinn fyrri, hann fékk að fara aftur í moldina og lifir hann góðu lífi í dag.  Ég náði í stóru byssurnar, a.k.a. the big guns, ég þræddi upp á girnið hinn goðsagnakennda svarta Toby spún.  Það var ekki að spyrja að því, mér leið eins og einum af Chippendale strippurunum, þvílík athygli sem ég fékk frá félögum mínum sem svamlandi voru í ánni.  Ég var búinn að semja heila bloggfærslu í hausnum á mér um hve vonlaus veiðimaður ég væri þegar allt í einu bitið var á.  Ég átti ekki til orð, tveggja tíma pælingar um næstu bloggfærslu í súginn.  Á önglinum var grillhæf bleikja, er ég hafði náð henni upp á land og losað öngulinn úr henni áttum við smá móment… við horfum djúpt í augun á hvort öðru og á því augnabliki áttaði ég mig á að þessa fallegu bleikju gæti ég ekki aflífað.  Í góðmennsku minni gaf ég henni áframhaldandi líf, eins og ormunum mínum tveimur.  Þessi klukkutíma veiðiferð endaði sem þriggja þriggja tíma veiðiferð, allt vegna minnar yndislegu þrjósku.

Ég skrapp svo aftur í kvöld að veiða, eftir að hafa slætt ána fram og til baka með hinum svokallaða gosagnakennda Toby spún skipti ég yfir í fjölskyldumótið herra Ormars.  Nartað var í herra Ormar hér og þar en ekkert gekk.  Þá var ákveðið einróma af sjálfum mér að næsta kast yrði mitt síðasta, ég horfði á flotholtið líða um ána, setti svo stöngina niður til að laga girnið þegar allt í einu allt fór af stað.  Viti menn, eftir nokkurra mínútna baráttu dró ég á land 4-5 punda bleikju takk fyrir.  Ekkert móment átti sér stað eins og í gær og aflífaði ég bleikjuna á mannúðlegasta hátt sem ég veit um, með því að leggja höfuð hennar ítrekað þéttingsfast við stein.  En ég á samt eftir að eiga gott móment á morgun er ég legg bleikjuna á grillið. 

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.