Er tilgangur lífsins að takast á við eigin ótta?

Ég tókst á við eina af mínum miklu hræðslum á föstudaginn, en seint á síðustu öld, líklega rétt fyrir aldamótin, gekk ég í hóp lofthræddra sála.  Ég lagði af stað í fimmtu fjallgöngu sumarsins ásamt Siggum tveim og nú var ekkert smá fjall sigrað, fjallið sem setur svo mikinn svip á fjörðinn fagra, sjálf Hólshyrnan.

Við lögðum af stað úr Skútudal, fórum á toppinn og komum niður í Hólsdal og ég er alls ekki frá því að uppgangurinn hafi verið töluvert erfiðari en niðurgangurinn.  Niðurgangurinn var sérstaklega skemmtilegur því ég og annar Sigginn gengum í barndóm með hinum Sigganum og renndum okkur á óæðri endanum niður stóran snjóskafl sem lá flatmaga í hlíðinni.  Það var alveg æði en ég fann ekki fyrir afturendanum þegar niður var komið því það sem var á milli hjarnsins og því næst heilagasta voru næfuþunnar íþróttabuxur og ívið þynnri naríur.

Þar sem ég er hálf rauðhærður, nánar tiltekið kastaníubrúnhærður, þá á ég það til að sólbrenna ef ég heyri af sól í Skagafirði.  Sólin hins vegar skein sínu skærasta bak við skýin þennan annars fallega föstudag en einhvern vegin í ósköpunum tókst mér samt að sólbrenna, og það ekkert smá.  Ég var gjörsamlega orðinn eins og vandræðalegt jarðaber er kvölda tók. 

En það var æðislegt að standa á toppnum, ég horfði stoltur yfir bæinn með kúkinn í buxunum en ég myndi segja að 30% hafi verið lofthræðsla og 70% hafi verið sú staðreynd að ég var alveg að kúka á mig.  Þrátt fyrir að mér hafi verið boðið bréf af Siggunum þá lagði ég nú samt ekki í það að kúka á hyrnunni, ég átti hinsvegar eðalstund á dollunni er heim var komið. 

Ég segi því svo að það sé tilgangur lífsins að takast á við eigin ótta, bara ekki gleyma klósettpappírnum.

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband