Er tilgangur lífsins að fara á öldung?

Ég vona að enginn misskilji titil þessarar færslu en þarna er átt við öldungamót blakara sem var haldið á Ísafirði dagana 1. – 3. maí.

Rútuferðin frá Sigló til Ísó tók ekki nema litla 9 og ½ tíma en mikið gaman var í rútunni, var m.a. tekið í gítar á seinni partinum þegar söngvatnið hafði verið mundað og var mikið stuð.  96 lið allstaðar að, komu á Ísafjörð og vorum við ca. 40 sem mættum frá Sigló, Súlurnar mættu með þrjú lið og við Hyrnu menn mættum með tvö lið.  Miðað við hina heimsfrægu höfðatölu finnst mér það bara frábær árangur.  Árangurinn lét að sjálfsögðu ekki á sér standa, við í yngra liðinu enduðum í þriðja sæti en öll liðin frá Sigló, nema Súlur 1, fengu verðlaun.  Linda, Gilla, Didda R, Didda G, Silla og Helga… ég skal deila með ykkur bronsinu mínu!! Grin

Þema mótsins var lönd og fengum við Hyrnu menn Sádi Arabíu til að vinna með.  Við gengum því um götur Ísafjarðar, Bolungarvíkur, Flateyrar og Suðureyrar með araba höfuðföt en keppnisvellir voru á öllum þessum stöðum.  Þetta var mjög skemmtilegt og mörg lið lögðu mikið í þemað sitt.  Oftar en ekki þegar við mættum í hús heyrði maður oft út frá sér “Þarna koma olíufurstarnir”. 

Ég varð vitni af vondu atviki sem gerðist á mótinu en einn leikmaður kvennaliðs Gróttu fékk hjartaáfall í miðjum leik.  Skjót viðbrögð blakliðsins frá Landsspítalanum ásamt Hyrnu mannsins Sigga hjúkku björguðu án efa lífi þessara ágætu konu en hún fékk hárrétta meðhöndlun þangað til sjúkrabíllinn birtist.  Við fengum svo góðar fréttir af henni seinna um daginn svo þetta fór allt vel.

En að léttara tali…. herbergisfélagi minní þessari ferð var sjálfur Goggi Clúní tvífarinn hann Gulli Stebbi.  Við vorum ásamt tveimur öðrum Hyrnumönnum og slatta af Súlu dömum á gistiheimili á Ísafirði en hjóna fólkið var á Hótelinu.  Það var nú ekki lengi verið að finna nöfn á okkur og vorum við kallaðir Beggi og Pacas, eða hommarnir á hæðinni.  Ég var Beggi enda er Gulli beib miklu líkari Pacas. LoL

Lífið var auðvitað skoðað á Ísafirði by day og by night, þó aðallega by night, og verð ég að segja að Ísafjörður er klassa bær.  Það er ótrúlega margt þarna sem minnir á Sigló og leið manni mjög vel þarna meðan á dvölinni stóð.  Besta kvöldið var án efa föstudagskvöldið en þá var dansað á Edinborgarhúsinu til klukkan 3 um nóttina í svaka stuði undir tónum frá hinum ísfirska Stúlla og ísfirsku Dúu, sem voru í hörkugír.  Lokahófið var svo á laugardagskvöldinu og byrjaði kvöldið á hittingi heima hjá Loga leikstjóra, en Tóti svili og Hyrnu maður fékk litla bróður til að bjóða okkur á vinnustofu konunnar sinnar.  Svo var farið í íþróttahöllina þar sem hófið var haldið og ég held að við ættum ekkert að ræða framhaldið.  Það voru ekki ellismellirnir sem voru fyrstir til að fara heim, kl. 00:06 stóðum við tvö yngstu í hópnum upp úr sætum okkar og fórum heim að sofa.  Karlar og konur á sjötugsaldri og einn sem er nýkominn á áttræðis aldurinn héldu lengur út á djamminu en við…  Helga, við erum ÖMURLEG!!!  Pinch  Maður fékk líka alveg að heyra það í dag á leiðinni heim í rútunni sem tók ekki nema 8 og ½ tíma.  Ég er samt með kenningu á þessu þróttleysi á laugardagskvöldið... ég hreyfði mig miklu meira í leikjunum heldur en hinir Wink

Næsta mót verður haldið Seyðisfirði og á Egilsstöðum og get ég ekki annað sagt en maður bíði spenntur þangað til.

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Beggi og Pacas, Simmi og Jói - hvað er málið?

Telma (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 12:38

2 identicon

Ég veit það ekki... spurning hver maður verður næst  

Daníel (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.