Ástæða bloggleysi síðustu daga er sú skemmtilega staðreynd að ég hef ekki verið á landinu. Við Jóna lögðum land undir fót og ferðuðumst til Danaveldis með vinnufélögum okkar og vorum í kóngsins Köbenhavn. Það var æðislega gaman að fá að spreyta sig í dönskunni aftur, maður bjó þarna í tvö ár svo maður kann alveg orð eða tvö
Við lögðum af stað frá Sigló til Keflavíkur á miðvikudaginn í hádeginu og með okkur í för var par sem ekki vill láta nafn síns getið, svo framvegis skulum við kalla þau
. Telmu og Agga. Það var stoppað í Borg óttans og hitt Hans og Grétu, a.k.a. Grísalöppu, á Ruby Tuesday og þar sem ég fékk mér einn þann stærsta hammara sem ég hef étið, hann var tvöfaldur og á stærð við höfuðið á 4 ára barni. En auðvitað kláraði maður burgerinn. Eftir að hafa skellt þessu í andlitið á sér var haldið til Keflavíkur, en við gistum á Hótel Kefló.
Daginn eftir var svo skellt sér upp á flugvöll og púlsinn tekinn á Fríhöfninni. Mig langar sérstaklega að hrósa fólkinu sem starfar þar í búðum og börum, allir rosalega almennilegir og með frábæra þjónustulund. Flugið út var flott og fínt, en parið sem kýs að kalla sig Telmu og Agga var frekar stressað, en þau eru víst haldin því sem nefnt er á latnesku Flugius hræðslupúkíus eða flughræðsla. Við vorum í vél út sem var með snertiskjá fyrir framan mann og gat maður t.d. valið milli sjónvarpsþátta, mynda og tölvuleikja. Ég horfði á hamfarir Hómers Simpson í þrjá tíma og leið flugið alveg bara einn, tveir og lúdó. Parið sem vill láta kalla sig Telmu og Agga skjögraði þó út úr vélinni dauðfegið að vera komin út.
Köben var alveg æði, sumarið byrjað að sýna sig, danska krónan aldrei kostað jafn mikið og mannlífið gjörsamlega iðandi. Strikið var þrætt hægri vinstri, sem og hið fína moll er nefnt er Fisketorvet og einnig var stærsta moll í Skandinavíu heimsótt en það heitir Fields. Í Fields styttust lappirnar á mér um ca. 17 cm, þær hreinlega eyddust upp á göngu úr búð í búð. Við strákarnir nenntum nú ekki að labba úr hverri dömu búðinni í aðra, og úr einni Ecco búðinni í aðra... kem að því síðar
svo við reyndum að vera duglegir í því að fá okkur sæti hér og þar og bragða hinn ljómandi góða danska öl. Það tókst bara nokkuð vel hjá okkur. Damaní parinu sem vill láta kalla sig Telmu og Agga virtist hafa fengið það sem nefnt er á latnesku Flugius eftirklikkíus því ekkert komst að nema hugsunin að komast í Ecco búð og kaupa Ecco skó. Eftir að hafa skoðað 79 Ecco búðir á stór-Kaupmannahafnar-svæðinu keypti hún loksins réttu skóna, þeir voru Adidas skór. Ef Ecco búð er það sem þú leitar að í Köben þá bara bjallaðu.
Á laugardagskvöldinu borðuðu allir saman á áströlskum stað sem heitir Reef n´ beef, í forrétt emúi, í aðalrétt kengúra og svo var eftirréttur. Ég á eiginlega ekki til orð yfir að lýsa matnum, ég slefa bara við tilhugsunina. Ef þú vilt fá eitthvað gott að borða í Köben þá er Reef n´ beef málið.
Sunnudagurinn fór svo í að koma sér heim frá Köben til Sigló, það tók ekki nema 12 tíma takk fyrir takk og var vinnudagurinn í dag gjörsamlega ónýtur.
Að lokum þá vil ég koma því á framfæri að ef einhvern vantar "gæd" í Köben þá er ég sko rétti maðurinn. Fólk fær sko miklu meira fyrir peninginn hjá mér og miklu meira að sjá því ég er snillingur í að fara ekki alveg réttu leiðina.
Góðar stundir
Athugasemdir
Ecco hvað ? Fékkstu sólsting eða ? Adidas það er málið !!!
Telma (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 14:36
Right... fljótt skipast veður í lofti... Telma Reykás
Daníel (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.