Er tilgangur lífsins að blaka?

Vá maður í dag er 1. mars, síðast þegar ég bloggaði var 1. febrúar og Púllararnir voru að standa sig vel, nýbúnir að vinna Chel$ea.  Það er annað í dag, tap á móti Boro nú um helgina virðist hafa gert endanlega út um titilbaráttuna.  Það er sem sagt mikið búið að gerast á þessum heila mánuði, en þar sem ég er svo sybbinn þá man ég ekki eftir neinu sem gerðist fyrir síðasta miðvikudag.

Núna um helgina flykktust blakmenn og konur hingað í fjörðinn og tóku þátt í hinu árlega Siglómóti okkar Hyrnumanna og Súlumeyja.  Ég ætla ekki að ræða mikið gengi okkar manna enda var það í frjálsu falli eins og krónan.  Við tókum okkur samt saman í andlitinu og djömmuðum mest um kvöldið og stóðum því uppi sem sigurvegarar í samanlögðu.  Ég gerði mér lítið fyrir og reif mig upp á rasshárunum kl. 05:00 á laugardagsmorguninn og keyrði heim á Sigló til að taka þátt í mótinu en við fjölskyldan skelltum okkur til Sódómu á fimmtudaginn til að styðja við bakið á Grísalöppu sem tók þátt í Ungfrú Reykjavík.  Ég er ekki frá því að það eigi að kæra þessi úrslit því dömurnar í öðru og þriðja sæti voru nú ekki neinar vínarbrauðslengjur þrátt fyrir að vera huggulegar.

Heilastarfsemin hefur ekki komist í gang í dag vegna þreytu og ég sé ekki fram á að það gerist fyrr en á þriðjudaginn, þangað til…

Góðar stundir

Er tilgangur lífsins að hugsa?

Ég og Móses skelltum okkur í göngu eftir frækilegan sigur Liverpool á Chel$ea í kvöld, ég varð bara að fara út til að ná mér niður.  Leikurinn tók svo á að ég var búinn að naga táneglurnar upp í nára. 

Það er ekki mikið sem maður gerir einn í göngutúrum, ég dunda mér við að glápa inn um glugga bæjarbúa eða hugsa um lífið og tilveruna.  Er göngutúrinn hafði rétt slitið barnaskónum var huganum gefið frjálsræði til að reika þangað sem hann vildi, áður en ég vissi af þá var hann kominn með mig á dolluna, þ.e.a.s. náðhúsið, salernið, klósettið, kamarinn… þið vitið.  Ekki það að ég hafi þurft að gera númer eitt eða tvö… þetta virðist  mér bara eitthvað svo hugleikið.  Smile

“Ég elska að kúka í vinnunni” sagði hugurinn mér, og hélt áfram, “Það er svo gott að sitja einn með sjálfum sér, hlusta bæði á stuttar og langar prump-sinfóníur sem geta verið mjög skemmtilegar og hljómmiklar, loka augunum og ímynda sér að maður sé áhorfandi á dýfingarkeppni þegar maður heyrir “blúbs-ið" óma, hugsa um lífið....  og allt þetta á launum.” 

Ég ákvað að hugsa ekki meira það sem eftirlifði göngutúrsins.

Góðar stundir

Er tilgangur lífsins að vera sauður?

Fyrsta asnastrik ársins leit dagsins ljós fyrir stuttu, árið er varla búið að slíta barnaskónum og strax er maður byrjaður. 

Ég eignaðist fyrir einhverju síðan þennan fína ilm frá meistara Beckham og með ilmum fylgdi einnig svitalyktaeyðir meistarans.  Ég man engan veginn hvernig ég eignaðist þessa fínu gripi en það mun verða aukaatriði í þessari frásögn og er þessi setning sett hérna inn eingöngu til að lengja bloggfærsluna.  Ég er nýbyrjaður að brúka svitalyktareyðirinn og ég nota svona vörur ekki mjög mikið, er mest fyrir að hafa þetta bara au de natural.  Við fyrstu tilraunirnar fannst mér hann nú ekki að virka mjög vel, plús það að hann var svo þurr og skrítinn og bara óþægilegur í alla staði.  Ég þakka bara fyrir að vera vel rakaður undir höndunum, því það er nokkuð ljóst að ef ég væri með austur-þýska kvenmanns kúluvarparabrúska þá væri þetta einn samfelldur hárreytingur. 

Í fjórðu eða fimmtu tilraun gerðust svo merkilegheitin, nú átti að taka þetta með ofbeldi og látum svo ég þrumaði eyðinum í krikann og rúnkaði honum upp og niður með fítónskrafti.  Þá hreyfðist plasthulsan…. eehhhh… já, ég trúði ekki mínu eigin handakrikum.  Allan tímann var búin að vera glær plasthulsa yfir eyðinum… helvítis fokking fokk!  Ég gerði það eina rétta í stöðunni, fór niður á fjórar og jarmaði eins og sauður.

 

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að vinna í lottóinu?

18.623.900.- kr. beint í vasann... jibbí!!!
Ég ætla að fara og fá mér bland í poka á meðan ég ulla á kreppuna.

Betra kannski að renna yfir miðan fyrst....

Góðar stundir


mbl.is Þrír með allar tölur réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er tilgangur lífsins að gleðilegt nýtt ár?

Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá hefur heimsbyggðin tekið skrefið yfir þröskuldinn hjá árinu 2009, gleðilegt nýtt ár heimsbyggð.  Ég vona kreppulega séð að salarkynni ársins 2009 verði ívið glæstari en 2008.  Mig langar til að þakka fyrir lestra, athugasemdir og fyrir báðar kvittanirnar í gestabókina á liðnu ári.

Áramótin liðu mjög þægilega framhjá, við skötuhjúin snæddum unaðslegt hvítlauks lambalæri undir röfli Geirs Haarde, fórum yfir árið með fréttamönnum Stöðvar 2 og RÚV og hlógum svo af skaupinu sem kom skemmtilega á óvart, það var bara virkilega fyndið þetta árið.  Rekstrarleigubörnin Salka og Jóel voru hjá pabba sínum á Selfossi og Grísalappan Anna var að ergja Flórídabúa í USA, þannig að ég keypti ekki eitt rakettukvikindi og héldum við Jóna, Jörgen Jón, hundspottin Móses og Muggur og Kjartan kanína okkur bara innandyra í kósýheitum par exelans og nutum flugeldasýningarinnar.  Já ég er ekki frá því að kreppan hafi sett svip sinn á þessi áramót því 10 – 15 mín. eftir að nýja árið var gengið í garð var komin þögn í fjörðinn.

Nýja árið hefur farið gríðarlega rólega af stað, ég hef ekki hreyft á mér rassgatið nema í ýtrustu neyð, þ.e.a.s. til að borða og kúka.  Sólarhringnum hefur maður snúið gjörsamlega við og ekki nóg með það, heldur er maður byrjaður að éta á skrítnum tímum sólarhringsins.  Ég var til að mynda að enda við að sporðrenna fjórum mjög fallega ristuðum brauðsneiðum með hreindýrapaté og drottningarsultu, sjúklega gott í kroppinn.  Muggur var að enda við að hlanda á útrásarvíkingsandlitið á Jóni Ásgeiri sem liggur marflatur á gólfinu framan á sorpritinu DV og þá tel ég að það sé kominn tími á að hunskast inn í rúm. 

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að eiga gleðileg jól?

Gleðilega hátíð kæru netverjar og verjur.  Það er ekki laust við að maður hafi haft það með eindæmum gott það sem af er jólahátíðinni, það var étið á sig gat í gær, aðfangadag, og aftur í dag, stefnan er svo sett á að éta á sig gat á hverjum degi fram á nýtt ár.  Eftir daginn í dag er kósí sófinn minn kominn með legusár og því mun verða viðhaldið eitthvað áfram. Wink

Á aðfangadag fór ég minn hefðbundna jólapakka og kortarúnt en í mínum huga er það ómissandi forveri jólanna.  Ég er ekki mikið fyrir að henda kortunum bara inn um lúguna heldur banka ég yfirleitt og afhendi viðkomandi kortið.  Það er bara svo mikil stemming yfir þessu, allir í góðu skapi og jólakveðjurnar fljúga fram og til baka. Það hefur svo verið siður að stoppa hjá Kristínu frænku, og Fríðu frænku áður en hún flutti, og fá sér kaffi og hollustu konfekt.
Um klukkan 18:00 hef ég svo opnað jólakortin mín og áttað mig á hverjum ég hef gleymt að senda.  Þessi jól eru öðruvísi en öll önnur því ég er nýlega búinn að eignast tvo syni, annan loðinn, hinn ekki, og það hefur ekki ennþá verið fundinn tími fyrir jólakortalestur.  En ég er alveg agalegur þegar kemur að jólakortasendingum, það skal alltaf einhver gleymast.  Fyrir þá sem ekki fengu þetta árið, þið fáið kort á næsta ári Wink
Á jólunum gerast kraftaverk bæði stór og smá og upplifði ég eitt stórt.  Móðir mín og faðir hafa snætt jólamatinn í sínu koti allan sinn búskap, sem spannar hátt í hálfa öld.  Þetta aðfangadagskvöld snæddu þau jólamatinn hjá Spariunganum sínum og í mínum huga er hrun bankanna í landinu smáfrétt miðað við þennan stórviðburð. 

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá á ég það til að vera snillingur þegar ég tek mig til.  Mitt síðasta snilldarverk framkvæmdi ég í jólastressinu við gerð pistilsins sem ég sendi með jólakortunum.  Haldið að ég hafi ekki gleymt, þrátt fyrir ítarlega ritskoðun, að setja nafnið á sköllótta syni mínum undir jólakveðjuna, en þar voru allir á heimilinu taldir upp, meira að segja hundarnir og kanínan.  Ef maður á ekki eftir að fá að heyra það á nýja árinu, þá veit ég ekki hvað.

Jólabloggið verður ekki lengra í bili góðir hálsar og kveð ég ykkur með jólakveðjunni sem ég set í hvert einasta jólakort og hljómar þannig:

Megi friður jólanna veita yl, birtu og góðar minningar.

Góðar stundir

  

Er tilgangur lífsins að eiga leynivin?

Við sem stöndum vaktina saman í amstri dagsins lífguðum heldur betur upp á vikuna sem er ný liðin með því að fara í leynivinaleik, en í leiknum eignaðist ég vin sem ég átti að gleðja leynilega sem og að reyna að finna út hver var að gleðja mig.

Ég mætti í felulitunum í amstrið alla vikuna og ég fílaði mig eins og durturinn í Survivor  þáttunum því ég var í því að blekkja leynivin minn, og aðra í kringum hann.  Það tókst nokkuð vel því ég samdi t.d. við samverkakonu mína um að fá að lauma gjöfum til hennar leynivins, sem sat við hliðina á mínum leynivini.  Einnig kom ég því þannig fyrir að gjafirnar frá mér virtust koma úr allt annarri átt þannig að leynivinur minn var byrjaður að herja á mann og annan hann taldi vera vinir sínir.  Með öðrum orðum þá tókst mér að gera leynivin minn gjörsamlega kolruglaðan og ekki mátti blessunin nú ekki mikið við því.  Tounge

Það atvikaðist svo skemmtilega þessa viku að ég var ekki á mínum venjulega stað í amstrinu, heldur var ég staðsettur í nágrenni við leynivin minn og varð vitni af öllum mörgu skemmtilegu.  Ég bjó til netfang á hotmail og sendi þaðan m.a. vísbendingar í spakmælaformi sem voru í raun og veru engar vísbendingar.  Mitt stoltasta móment í leynivinavikunni var þegar ég gerðist svo kræfur að senda leynivinkonu minni póst meðan hún stóð við tölvuna mína og var að tala við mig, mér leið eins og spennufíkli að upplifa sína villtustu drauma.  LoL  Er upplestur á “vísbendingunum” hófst þá átti ég mjög erfitt með mig þegar pælingar sem fylgdu byrjuðu í kjölfarið í fríðum kvennahópi:

- Betri er einn fugl í sósu en tveir í frysti

- Oft er í holti heyrandi nær og gettu hver ég er.  Vísbending segir prestur.

- Of mikið af húsverkum geta valdið heilaskaða

- Það þarf ekki nema einn gikk í hverri veiðistöð

- Ég geri það sama við vini og bækur.  Ég vil vita hvar ég hef þá, en ég nota þá sjaldan.

Reyndar finnst mér einn fugl í sósu betri en tveir í frysti og ég geri kannski ekki alltof mikið af húsverkum af ótta við heilaskaða svo það er kannski smá hluti af “vísbendingunum” sem á vel við um mig Wink 

Ég bíð spenntur eftir næstu leynivinaviku og tækifærinu til að hræra í hugum samverkamanna minna!! Devil

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að fara í kvöldgöngu?

Við Móses skelltum okkur í eina af okkar margrómuðu kvöldgöngu nú í kvöld.  Ég er agalega ánægður með jólabæinn minn, ég held hreinlega að það sé ekki hægt að finna jólalegri bæ norðan við Pýreneuskagan. 

En hápunktur göngunnar var að öllum líkindum þegar færeyski frændi Kúks Í. Poka, hann Kukkur Í. Pose, bættist í hópinn og það á sjálfum Presthólnum.  Sú hugsun rann í gegnum huga minn er ég dvaldi við kúkatínsluna, hvort það gæti verið að hundurinn væri að senda ákveðinn skilaboð varðandi messuhaldið hjá prestley með þessu athæfi.  Spurning!!  Halo

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að fagna litlum jólum?

Gott fólk, þið eruð að skoða síðuna hjá litlu jóla meistara Daníel, en lið mitt niðurlægði andstæðinga sína í gærkvöldi er Hyrnumenn fögnuðu litlum jólum af sinni alkunnu snilld.  Eftir að hafa spilað blak í 3 tíma var haldið í Litaríki Guðföðurins þar sem snæddur var dýrindis matur af Allanum og svo var spilað og sungið fram í nóttina.  Það sannast enn og aftur að þar sem blakarar koma sama, þar er gaman.

Ég var búinn að setja stefnuna á hresst og skemmtilegt blogg þetta laugardagskvöldið, en þessa stundina er slökkt á allri heilastarfssemi eða hún utan þjónustusvæðis.  Það verður því að bíða betri tíma.

Góðar stundir


Er tilgangur lífsins að lifa eftir stjörnuspánni?

Er ég leit á stjörnuspá dagsins í dag tók ég ferkantaða ákvörðun, ég setti mér það markmið að hafa samskipti við sem fæsta í dag og ekki fara út fyrir hússins dyr en hún hljómaði svona:

Naut: Einhver vandræði koma upp í samskiptum þínum við aðra þannig að þú þarft að leita þér að bandamanni.

Þetta herkænskubragð mitt tókst með eindæmum vel þar til hungrið byrjaði að segja til sín, því fyrir utan að hafa farið huldu höfði í smá barnaskutlerí þá fór ég ekki út fyrr en að tengdó náði að lokka mig með því að bjóða mér og minni familíu í syndsamlega góðan skíthoppara í brúnni sósu sem hún eldaði í kvöldmat.

Er heim var komið eftir kvöldmatinn þá tók á móti mér lítið loðið óargadýr sem var orðið eins og Duracell kanína á spítti, stútfullt af orku og þurfti nauðsynlega að komast út að labba.  Ég skellti því ólinni á Móses og við læddumst út í kvöldið og enduðum við uppi á Stóra bola þar sem við virtum fyrir okkur syðsta hluta bæjarins uppljómaðan af jólaljósum… mjög skemmtilegt móment.

Dagurinn fór samt ekki alveg til spillis, þrátt fyrir að ég hafi eytt honum heima, því þessi dagur náði því skemmtilega takmarki að vera þriggja-þvottavéla-dagur hvorki meira né minna en á milli þvottavéla gætti ég að Jörgeni Jóni því mamma hans var meira og minna utan þjónustusvæðis í dag.  Mér leið svo eins og Chevy Chase í National Lampoon´s Christmas Vacation í síðasta stórverki dagsins þegar ég setti undursamlega upplýsta jólabjöllu á skjólvegginn bak við hús, hún tekur sig bara mjög skemmtilega út.  Ef þið hafið ekki séð Christmas Vacation þá skora ég á ykkur á að taka hana á leigu eða downlóda henni löglega eða jafnvel ólöglega og horfa á hana, þetta er myndin sem kemur jólaskapinu í rétta gírinn.

Ég náði ekki að lifa alveg eftir stjörnuspá dagsins en það kom ekki að sök, enda ætti maður kannski ekki að taka alltof mikið mark á þessu.

Góðar stundir


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.